131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Stuðningur við börn flutningsskyldra starfsmanna.

518. mál
[12:54]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Á undanförnum mánuðum og árum hefur mikið verið rætt um það á hvern hátt megi sem best tryggja stuðning barna þess fólks af erlendum uppruna sem kýs að flytja til landsins og hafa búsetu hér. Rætt hefur verið um félagslegan stuðning og félagslega aðlögun fjölskyldnanna og að gera þurfi þeim kleift að aðlagast þjóðfélaginu sem allra best. Teknar hafa verið ákvarðanir um að í skólakerfinu verði tekið sérstaklega á málefnum þessara barna og áhersla er lögð á að skólakerfið taki vel á móti þeim einstaklingum sem sumir hverjir hafa stundað nám í skólum í heimalandi sínu og koma hingað í gerólíkt umhverfi. Þetta er allt saman gott og mætti vera betra en er á réttri leið. Við viljum taka vel á móti þessum fjölskyldum og veita þeim þann stuðning sem mögulegt er.

Í utanríkisþjónustunni starfar fjöldi flutningsskyldra starfsmanna, fjölskyldufólk sem tekur sig upp í okkar þágu og býr erlendis árum saman. Það er gífurleg félagsleg röskun fyrir börn að flytja héðan til langdvalar erlendis, nýtt félagslegt umhverfi, nýtt skólakerfi og önnur menning. Ég hef velt því fyrir mér með hvaða hætti við styðjum við bakið á þessum fjölskyldum, þó einkum börnum flutningsskyldra starfsmanna. Hvað gerum við þegar þau flytja héðan til búsetu erlendis? Er eitthvert skipulegt kerfi sem styður við bakið á fjölskyldunum og auðveldar flutninginn? Ekki síður þegar þær koma aftur til landsins eftir margra ára búsetu erlendis. Börn þessa fólks hafa þá sum hver stundað nám í erlendum skólum og þekkja jafnvel ekki annað. Þau hafa fallið inn í félagslegt umhverfi í öðru landi og flytja síðan aftur heim, jafnvel í óákveðinn tíma. Það má telja þau eins konar nýbúa í landinu sínu, í skólakerfinu okkar og það er að vissu leyti framandi umhverfi sem þau þurfa að venjast og læra á, á sama hátt og börn fjölskyldna af erlendum uppruna sem hingað flytja. Það er nauðsynlegt að hugað sé vel að stuðningi við fjölskyldur flutningsskyldra starfsmanna. Í raun er ekki einungis sá fjölskyldumeðlimur sem hefur formlega stöðu starfsmanns utanríkisþjónustunnar fulltrúi þjóðarinnar erlendis. Ég lít þannig á að fjölskyldan í heild sinni sé fulltrúi okkar. Því spyr ég hæstv. ráðherra:

1. Hvernig er háttað stuðningi við börn flutningsskyldra starfsmanna í utanríkisþjónustunni við heimkomu eftir búsetu erlendis, t.d. hvað varðar skólagöngu og félagslega aðlögun?

2. Er starfandi sérstakur fjölskylduráðgjafi í utanríkisráðuneytinu? Ef ekki, mun ráðherra beita sér fyrir því að svo verði?