131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Stuðningur við börn flutningsskyldra starfsmanna.

518. mál
[13:00]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og tek undir að það eru auðvitað fleiri hópar sem búa erlendis um ákveðinn tíma og þá með ung börn, sérstaklega námsmenn eða þeir sem sjálfir ákveða að sækja vinnu erlendis.

Það er samt svolítið ólíkt, einfaldlega vegna þess að það er ákveðið óöryggi sem alltaf fylgir því að vera flutningsskyldur starfsmaður utanríkisþjónustu hvers lands og menn vita ekki alltaf nákvæmlega hvert þeir flytja eða til hvaða starfa þeir fara hverju sinni. Ástæða þess að ég spyr um fjölskylduráðgjafann er ekki einungis sú að það þurfi einstaklinga sem haldi utan um börn flutningsskyldra starfsmanna þegar þau koma til landsins, heldur ekki síður það sem snýr að mökum flutningsskyldra starfsmanna sem oft á tíðum eiga mjög erfitt með að fá tímabundna vinnu hérna og eftir því sem ég skil best þá eru nýlegar breytingar varðandi lífeyrissjóð maka þannig að greiðslurnar falla niður þegar maki kemur heim en aðeins er um að ræða greiðslur þegar dvöl er erlendis. Það hefur oft á tíðum reynst mjög erfitt að fá vinnu og mörg vandamál geta komið upp hjá fjölskyldum flutningsskyldra starfsmanna. Auðvitað eru flestir sem betur fer mjög sterkir einstaklingar sem standast vel þetta álag, en það gæti þurft að standa betur að verki varðandi það hvernig hlúa má að fjölskyldum þessara starfsmanna. Ég fagna því ef hæstv. ráðherra vill skoða þá hugmynd að ráðinn verði fjölskylduráðgjafi að ráðuneytinu.

Varðandi þá athugasemd sem kom fram hjá hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni er nú starfandi íslenskuskóli á netinu. Ég hef reynt að fylgjast vel með því hvað gert er og hvað unnið er varðandi börn sem búa erlendis, sérstaklega starfsmanna utanríkisþjónustunnar, starfsmanna okkar. Það er starfandi íslenskuskóli á netinu.