131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Samstarf við Rauða kross Íslands um móttöku flóttamannahópa.

373. mál
[13:14]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu.

Það er rétt sem hv. þm. Ögmundur Jónasson bendir á að flóttamannaráð hefur nú einungis verið skipað til eins árs. Það er einmitt af sömu ástæðu og ég rakti í ræðu minni áðan að við erum með þessi mál til heildarendurskoðunar. Mér þótti rétt að það yrði þá skipað til skemmri tíma en áður var gert á meðan við værum að sjá fram úr því með hvaða hætti við vildum koma þessum málum fyrir í framtíðinni.

Það má við þessa umræðu rifja upp að á fullveldisdaginn í fyrra var ýtt úr vör verkefninu Framtíð í nýju landi sem er samstarfsverkefni ríkisins, Reykjavíkurborgar, Rauða krossins, Velferðarsjóðs barna og Alþjóðahúss. Þar er ungum innflytjendum boðið upp á aðstoð, ráðgjöf og þátttöku í ýmsum verkefnum sem miða að því að styðja þá í námi og starfi. Fyrsti þátttökuhópurinn er einmitt Víetnamar, sem margir hverjir eru tengdir eða afkomendur flóttamannanna sem komu hingað til lands fyrir 25 árum.

Ég vil líka geta þess að það kerfi sem við höfum byggt upp á Íslandi við móttöku flóttamanna, stuðningsmannakerfið sem við höfum stuðst við, hefur notið verðskuldaðrar athygli á erlendum vettvangi. Í því felst að hver flóttamannafjölskylda fær svokallaðan stuðningsmann eða stuðningsfjölskyldu sem tekur hana að sér fyrsta árið og aðstoðar við ýmis dagleg verkefni og kynnir samhliða fyrir innflytjendum íslenska siði og venjur. Stuðningsfjölskyldan er þannig fólkinu innan handar við hvaðeina sem kemur upp í samskiptum við opinbera aðila og má segja að í mörgum tilvikum hafi stuðningsfjölskyldan leitt flóttamannafjölskylduna inn í nýja heimalandið. Þessi aðferð hefur vakið verðskuldaða athygli í nágrannalöndum okkar og m.a. hjá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna.