131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Riðusmit og varnaraðgerðir gegn riðu.

461. mál
[13:30]

Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þakka fyrir þessa umræðu og fagna sérstaklega orðum hæstv. landbúnaðarráðherra um skipan starfshóps til að fara yfir varnaraðgerðir gegn riðu en vil þó taka fram að gestir sem komu fyrir hv. landbúnaðarnefnd í gær lýstu því yfir að þeir væru nokkuð ánægðir með þær aðgerðir sem nú tíðkast.

Það eru augljóslega miklir hagsmunir okkar allra að komið sé í veg fyrir riðu og sérfræðingar telja að það muni takast. Við erum því bjartsýn um það.

Ég vil koma inn á eitt atriði og það er að leggja verður áherslu á merkingar og þá merkingar um sóttvarnalínur. Það er alveg ótækt að til að mynda ferðamenn skuli ekki virða slíkar merkingar og ljóst er að takmarka verður umferð yfir þessi mörk vegna þess að þarna er riðan að berast.