131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Riðusmit og varnaraðgerðir gegn riðu.

461. mál
[13:36]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa öflugu umræðu og hversu margir hv. landbúnaðarnefndarmenn tóku þátt í henni og sýna málinu skilning og áhuga um varnir. Það er nú svo að tækninni fleygir fram og skimunin er að uppgötva hinn sjúka grip fyrr. Það gerist nú og þess vegna getur hafa komið hrina sem minnkar svo aftur við þessi strangari próf. Við skulum vona það og við skulum vona að við útrýmum riðunni.

Hvað kjötmjölsverksmiðjuna varðar hefur engin dæmt hana til dauða. Ég fór yfir það að hún er sjálfstætt fyrirtæki í eigu KB-bankamanna og á að heita eyðingarverksmiðja, tekin hefur verið ákvörðun um það af eigendunum að hún er eyðingarverksmiðja. Ég get sagt í þessari umræðu að auðvitað væri það æskilegast fyrir framtíð Íslands að úrgangur úr dýrum og öll sjálfdauð dýr færu í gegnum slíkar verksmiðjur.

KB-bankamenn höfðu samband við mig í gær og sögðust mundu eiga á næstunni fund með mér og umhverfisráðuneytinu til að fara yfir útreikninga sína á stöðu fyrirtækisins. Ég hef reyndar sagt að það væri mátulegt á þennan öfluga KB-banka að reka þetta fyrirtæki í heila öld. En nóg um það.

Ekki verður slakað á neinum innflutningi hvað kjötvörur varðar eða áhætta í þeim efnum tekin, það er ekkert á dagskrá og vonandi stendur þingið fast vörð um að það þurfum við Íslendingar að gera heilbrigðisins vegna. En þetta er eilíf barátta og auðvitað þarf að fara yfir það að menn taki enga áhættu hvorki í flutningum né í kringum sláturhús. Riða hefur aldrei greinst í lömbum en ég er klár á því miðað við núverandi aðstæður að mikilvægt er að fara yfir þessar reglur allar, líka hvaða kvaðir á að leggja á t.d. jarðir sem ekki hefur komið upp riða á þó að það séu sýkt svæði því að atvinnustarfsemi sveitanna hefur líka verið að breytast mikið og þetta veldur auðvitað ólgu og óróa. Starfshópurinn mun skila af sér vonandi eftir nokkra mánuði og þá mun ég óska þess að landbúnaðarnefnd komi að því máli og kynni sér það starf. En ég þakka þessa ágætu umræðu.