131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Útræðisréttur strandjarða.

524. mál
[13:41]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég segi eins og maðurinn að þetta mál er ekki á mínu forræði. Í rauninni ætti ég ekki að svara svona dónalegri ræðu sem hér var flutt og ódrengilegri, því vissulega er hún ódrengileg.

Ég get sagt frá því að ég hef setið aðalfund og flutt ræðu yfir þessum aðilum og átt með þeim ágætar stundir. Þeir hafa heimsótt mig og farið yfir sín mál og hugsjónir í baráttu sinni. Þetta er náttúrlega ekki bara spurning, þetta er eignarréttarmál sem heyrir þá kannski þess vegna undir hæstv. fjármálaráðherra frekar en þann sem hér stendur. Þetta er sjávarútvegsmál hvað kvótann varðar. Þetta er vissulega heilmikið nýtt deilumál sem gaus upp fyrir nokkrum árum og ekki einfalt mál og getur tekið langan tíma.

Nú í nokkurn tíma hafa eigendur jarða sem land eiga að sjó og eiga þar með ákveðinn veiðirétt í netlögum deilt um það við ríkið hvort þær almennu takmarkanir sem felast í útræðisrétti og fiskveiðum og fram komu í lögum um stjórn fiskveiða, nr. 38/1990, séu andstæðar stjórnarskrá. Það er ekki verið að deila um þetta við landbúnaðarráðherra heldur ráðherra sem þetta heyrir undir.

Mér er kunnugt um að í undirbúningi séu málaferli á hendur ríkinu um viðurkenningu á þessum meinta rétti strandjarða til að stunda útræði. En séu málaferli fram undan hvað þetta varðar er þess vegna kannski ekki eðlilegt að einn ráðherra úr ríkisstjórn, þótt hann sé vinur allra og ekki síst bændanna, sé að tjá sig á því stigi með sterkum orðum úr ræðustól þegar málið heyrir ekki einu sinni undir hann.

Hvað viðkemur fyrirspurn þingmannsins er rétt að taka fram að í landbúnaðarráðuneytinu hefur ekki verið unnið sérstaklega að því að fá viðurkenningu á útræðisrétti strandjarða. Ég hef hlustað á rök þeirra og farið yfir þau og við höfum alltaf gert okkur grein fyrir að þetta væri ekki okkar mál og ekki á okkar forræði.

Bændasamtökin hafa hins vegar verið með menn í þessu og lögmenn sem þeim ber fyrir stéttarbræður sína um land allt. Gengið hefur verið út frá því að lög nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, ásamt síðari breytingum, standist stjórnarskrá og að í þeim sé ekki gengið með ólögmætum hætti á eignar- eða atvinnuréttindi eigenda strandjarða. Þetta er sem sé stóra málið í þessu deiluefni og við það verða menn auðvitað að eiga á hinum rétta vettvangi.

Einnig skal bent á að hugsanlegt deilumál og lagasetning um það með hvaða hætti eigendur strandjarða nýta veiðirétt sinn í netlögum á nytjastofnum sjávar öðrum en ferskvatnsfiskum heyrir undir sjávarútvegsráðherra eins og ég hef nefnt og kannski eignarrétturinn undir hæstv. fjármálaráðherra. Kannski er lítið um það að segja en ef til vill flytur hv. þm. Sigurjón Þórðarson þetta til að geta haldið eina dæmalausa ræðu um Framsóknarflokkinn með ásökunum og fúkyrðum. Það hefur hann stundað hér, hæstv. forseti, og er ekkert við því að segja. Það eru hans mannréttindi í þingsal. Ég veit ekki hvort hann græðir á því, því það borgar sig eins og kemur fram í flestum málum að vera drengilegur og málefnalegur í umræðum. Það skilar yfirleitt mestum árangri.