131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Útræðisréttur strandjarða.

524. mál
[13:50]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég verð að lýsa yfir undrun á viðbrögðum hæstv. landbúnaðarráðherra. Það er eins og hann kveinki sér undan þessari umræðu. Hann ætti miklu frekar að fagna því að hafa fengið þessa fyrirspurn því að hún gefur honum alveg glimrandi tækifæri til að lýsa yfir eindregnum stuðningi við sjálfsagðar og eðlilegar kröfur eigenda sjávarjarða.

Ég vil fá að nota þessar örfáu sekúndur sem ég hef til að lýsa eindregnum stuðningi við baráttu þeirra. Þetta eru sanngjarnar og réttlátar kröfur sem þeir setja fram samkvæmt ævafornum lögum þessa lands. Á því er enginn vafi. Það væri ekkert mál að koma því þannig fyrir að þeir endurheimtu þennan sjálfsagða rétt, búa til reglur í kringum það umhverfi. Þetta gæti orðið til þess að sveitir landsins með ströndum fram mundu ná vopnum sínum á nýjan leik og fengju að blómstra. Þessar byggðir byggðust upphaflega upp á því að menn nýttu þar náttúruauðlindir og hafið var ein af þeim auðlindum. Þessu ætti hæstv. landbúnaðarráðherra að gera sér fulla grein fyrir.