131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Útræðisréttur strandjarða.

524. mál
[13:51]

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Herra forseti. Ég var sakaður um að flytja ódrengilega og dónalega ræðu en það kom ekki fram í máli hæstv. landbúnaðarráðherra hvað hafði verið dónalegt og ódrengilegt. Það væri fróðlegt að fá það gefið upp því að ég vil gjarnan bæta mig og fá þá fram hvað var svona dónalegt. Ég sé það ekki. Var það þegar ég vitnaði t.d. í flokkssamþykkt Framsóknarflokksins, að útræðisréttur strandjarða verði virtur á ný? Mér finnst með ólíkindum að hæstv. ráðherra skuli kveinka sér undan þessari umræðu, sérstaklega í ljósi þess að hæstv. ráðherra flutti efnismikla ræðu um útræðisrétt strandjarða á fundi eigenda sjávarjarða. Þar kom fram að hann tekur eindregið undir að þetta skipti verulega miklu máli, þetta væri mikið byggðamál. Þess vegna tel ég að hæstv. ráðherra ætti að leggja áherslu á að ná þessum rétti aftur fyrir bændur í landinu.

Hvað það varðar að saka mann um dónaskap, ég átta mig ekki á því. Ég hefði miklu frekar viljað heyra hæstv. ráðherra lýsa hér yfir stuðningi við baráttu bændanna, að hann ætlaði að leggja þeim lið í því að ná fram réttindum sínum. Eftir því sem ég kynni mér þetta mál betur tel ég einsýnt að verið sé að brjóta eignarrétt á bændum. Það liggur í hlutarins eðli þegar verið er að svipta þá hlunnindum innan netlaga.