131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Endurheimt votlendis.

532. mál
[14:05]

Drífa Hjartardóttir (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur fyrir að vekja máls á þessu merkilega máli í þingsölum og þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Mér fannst athyglisvert að heyra að einungis 3% af votlendi á Suðurlandi væri óraskað og hve mikilvægt það er að endurheimta votlendi til baka, ekki síst út af fuglalífinu og fjölbreytileikanum í náttúrunni. Ég tel að það sé mjög gott starf sem nefndin hefur unnið undanfarin ár og fagna því að ráðherra vill auka og efla starfið. Ég held að það skipti afskaplega miklu máli og eins þær rannsóknir sem hafa farið fram í Landbúnaðarháskóla Íslands — skólinn heitir Landbúnaðarháskóli Íslands en ekki Landbúnaðarháskóli ríkisins.