131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Endurheimt votlendis.

532. mál
[14:13]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessar ræður og góðan stuðning, bara til að sýna fram á hvað menn geta gert kannski með litlu handtaki. Ég nefni einn staðinn, Hrollaugsstaðablá í Hjaltastaðaþinghá. Þar voru aðstæður þær að jarðeigandi stíflaði frárennslisskurð. Við það fór vatn að renna yfir á annað svæði sem breyttist að nýju í votlendi. Um mikið votlendissvæði var að ræða, vart undir 300 hekturum og votlendisnefndin kom að þessu máli.

Ég get nefnt annað dæmi. Ég fór með nefndinni að Villingaholtsvatni í Flóa sem er 80 hektarar að flatarmáli. Þar blasti við að vatnið gat tæmst á stuttum tíma út í skurðinn. Það var að brjóta sig fram flóann og hefði getað horfið og orðið bara moldarflag eftir sem hefði skapað fok á annað land og eyðingu. Svona er þetta í mörgum tilfellum og ég held að hægt sé að gera vinna stórvirki, ekki síst í samstarfi við bændur landsins. Kannski er það rétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni að þetta mikla mál væri auðvitað verðskuldað í þingsályktunartillögu og til frekari umræðu um framtíð landsins í þessum efnum.

Við vitum líka eins og hér hefur komið fram að við þurfum að gæta þess hvar við plöntum trjánum. Skógurinn getur þurrkað upp mýrar og svæði. En það er engin spurning að menn fóru á einhverjum tíma óvarlega að mýrunum, menn töldu þær óvini landbúnaðarins, vildu fá valllendi og mýrarnar voru ræstar fram. Það hafði áhrif á fuglalíf og náttúru landsins.

Þessari nefnd hefur Níels Árni Lund stýrt af minni hálfu og gert það frábærlega og verið með sterka hugsjónamenn með sér í verkinu. Það er mikilvægt að halda því áfram. Ég held að það væri verðugt fyrir landbúnaðarnefnd og þess vegna umhverfisnefnd að fara á vettvang, hitta þessa nefnd og skoða aðstæður. Ég mun velta því fyrir mér hvort ég geti tekið þetta mál upp með frekari hætti í þinginu bæði til að kynna það og fá til þess frekari stuðning af hálfu þingsins.