131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Heilbrigðisstofnun Suðurlands.

519. mál
[14:21]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrir nokkrum mánuðum var tekin skóflustunga að viðbyggingu við Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi og það var hæstv. heilbrigðisráðherra sem varð þessa heiðurs aðnjótandi. Þetta var stór stund sem lengi hefur verið beðið eftir. Nýbyggingin á m.a. að hýsa sjúklinga sem dvalið hafa á Ljósheimum, hjúkrunardeild fyrir aldraða, sem hefur verið til húsa í gamla sjúkrahúsi Suðurlands sem er löngu orðið algjörlega óviðunandi fyrir þessa starfsemi, rekið á undanþágum vegna fjölda athugasemda sem eftirlitsstofnanir hins opinbera hafa gert. Það er alveg ljóst að hefði ríkisvaldið þurft að greiða dagsektir vegna þess að ekki hefur á undanförnum árum verið farið í þær úrbætur á húsnæði sem krafist var væri til myndarlegur sjóður sem nýst gæti við uppbyggingu nýs húsnæðis.

Slíkar greiðslur hefðu áreiðanlega verið innheimtar ef um einkarekstur hefði verið að ræða en það tíðkast víst ekki að opinberar stofnanir greiði dagsektir þó að allt sé í skötulíki og ekki orðið við athugasemdum sem eftirlitsaðilar gera. Það má segja að starfsemin á Ljósheimum hefði aldrei getað gengið svona lengi og svo vel sem raun ber vitni ef ekki hefði verið fyrir frábært starfsfólk þessarar stofnunar. Það var því löngu tímabært að hefja framkvæmdir við viðbygginguna.

En nú þarf að vera ljóst að það fjármagn sem til þarf til að ljúka framkvæmdinni á þeim tíma sem settur hefur verið sé tryggt og að það sé þá í samræmi við yfirlýsingar ráðamanna og einstakra þingmanna þar um. Nefnd hafa verið 2–3 ár. Við athugun á fjárlögum þessa og síðasta árs sé ég ekki að það geti orðið. Frekari fjárveitingar þurfa að koma til. Það er nauðsynlegt fyrir okkur að fá að heyra frá hæstv. ráðherra að þetta fjármagn verði tryggt, og því spyr ég hann:

Hversu mikið fjármagn er til ráðstöfunar á þessu ári til viðbyggingar við Heilbrigðisstofnun Suðurlands?

Hver er áætlaður verkáfangi á þessu ári? Hver er áætlaður heildarkostnaður? Hefur fé verið tryggt til verksins og hvenær má vænta verkloka?