131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Heilbrigðisstofnun Suðurlands.

519. mál
[14:28]

Drífa Hjartardóttir (S):

Herra forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda Margréti Frímannsdóttur fyrir að taka upp þetta mál einu sinni enn í þingsölum. Ég fagna svari ráðherra og þakka fyrir samstarf ráðherra við okkur þingmenn Suðurkjördæmis. Við sjáum það núna að þetta mál er í höfn. Það er byrjað á verkinu og það eru komin áætluð verklok og það sýnir að líka hefur orðið mikil breyting á verklagi í ráðuneyti heilbrigðisráðherra hvað varðar öll vinnubrögð.

Ég vil halda því til haga að það er mjög vont og rangt að tala niður til Ljósheima. Þar hefur starfsfólkið hugsað vel um sjúklingana og reynt að huga að líðan þeirra sem best. Sem betur fer er tíminn að verða liðinn en við eigum ekki að tala niður til þeirrar starfsemi sem þar hefur farið fram því að hún hefur verið mjög góð. Þó að húsnæðið sjálft hafi ekki verið upp á það besta hefur verið mjög vel hugsað um sjúklingana þar. (Gripið fram í: Hér er verið að tala um aðbúnað, ekki starfsemi.)