131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Heilbrigðisstofnun Suðurlands.

519. mál
[14:29]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og þeim þingmönnum sem hér tóku til máls. Það sýnir að mikil samstaða hefur verið meðal þingmannahóps, nú Suðurkjördæmis, áður Suðurlandskjördæmis, um þetta verkefni og gott samstarf hefur verið við hæstv. ráðherra. Engu að síður verð ég að segja að ég hefði viljað fá skýrari svör vegna þess að ef fjárveitingar eru skoðaðar undanfarin ár, þ.e. uppsöfnuð fjárveiting til sjúkrahússins eða viðbyggingarinnar og það sem er á árinu í ár á fjárlögum, er alveg ljóst að auknar fjárveitingar þurfa að koma á fjárlögum næsta árs. Ég hefði gjarnan viljað heyra frá hæstv. ráðherra hverjar þær fjárveitingar eru.

Ég vil einnig taka undir þá spurningu sem hv. þm. Kjartan Ólafsson varpaði fram um hvort möguleiki væri að gera um það samning að 3. hæðin rísi þarna sem dvalarheimilisrými. Þau vantar virkilega á þetta svæði. Það er jafnframt ljóst að nú þegar vantar fleiri hjúkrunarrými en þarna er gert ráð fyrir þannig að þetta er e.t.v. aðeins upphafið að þeirri byggingu og þeim framkvæmdum sem þurfa að koma í þágu aldraðra á Árborgarsvæðinu. Þær kannanir sem hafa verið gerðar núna af félagsmálayfirvöldum í Árborg hafa sýnt að það er þegar orðin aukin þörf frá því sem var fyrir hjúkrunarrými. Þarna er aðeins gert ráð fyrir að hýsa þá einstaklinga sem á Ljósheimum hafa verið. Ekki er um hreina viðbót að ræða.

Við höfum fengið áætluð verklok og það er hlutverk okkar, þingmanna Suðurkjördæmis, að sjá um að þar verði síðasti naglinn rekinn í febrúar 2007.