131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Húsnæðismál Landspítala -- háskólasjúkrahúss.

523. mál
[14:33]

Fyrirspyrjandi (Lára Margrét Ragnarsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Vatnsmýrin við Hringbraut hefur verið umræðuefni fjölmargra hagsmunaaðila undanfarin ár. Reykvíkingar hafa haft mikinn áhuga á að byggja íbúðarhúsnæði í Vatnsmýrinni ásamt verslunar- og þjónustubyggingum. Sumir vilja loka flugvellinum í Vatnsmýri en aðrir halda honum og síðast en ekki síst hafa stjórnvöld heilbrigðismála lagt kapp á að sameinuðu bráðasjúkrahúsi verði komið undir eitt þak við Hringbraut. Þannig munu sparnaður og hagkvæmni nást sem best.

Yfirstjórn Landspítala hefur lagt kapp á að byggja nýbyggingu við Hringbraut, ekki til norðurs eða nýta svæði gamla Landspítalans og hjúkrunarskólans en hluta þeirra bygginga þarf að rífa bráðlega. Hugmyndin er ekki ný. Stefnt hefur verið að því að byggja við Hringbraut allt frá 1970 og þá með allt öðrum forsendum um íbúafjölda og aðra þróun sem síðan hefur orðið á höfuðborgarsvæðinu. Nú skal áfram halda og í suðurátt út í eftirsótt og dýrmætt land — í Vatnsmýrina.

Ýmsir hafa skoðað staðsetningu nýs sameinaðs bráðasjúkrahúss, svokallaðs sómatísks eða líkamlegs sjúkrahúss, en ráð voru gefin við mismunandi forsendur. Þannig var ráðgert að fyrirtækið Ementor ætlaði að skoða þörf fyrir bráðasjúkrahús með tilliti til fólksfjölgunar á höfuðborgarsvæðinu og vaxandi hlutfalls eldri borgara. Ementor-ráðgjafar voru sammála um nauðsyn nýbyggingar og skoðuðu lóðir við Hringbraut, í Fossvogi og á Vífilsstöðum. Þessir ráðgjafar töldu mjög erfitt að byggja við Hringbraut og nýta áfram eldri byggingar. Aðrar deildir en sómatískar bráðadeildir væru ekki fyrirstaða fyrir að byggja í Fossvogi þar sem litið er á lóðir í Fossvogi og Hringbraut sem eina lóð í því tilviki, enda stutt á milli.

Sænska ráðgjafarfyrirtækið White var fengið til að gera eina, og aðeins eina, yfirlitsteikningu sem miðaðist við framtíðarbráðaspítala. Það var við Hringbraut. Svokallaður samanburður var gerður við aðra staði sem komu til greina en ekki aðlagaður staðháttum, heldur skipulag við Hringbraut sett hreinlega á kortið í Fossvogi, óbreytt frá tillögu White við Hringbraut. Fáir efast um nauðsyn á nýbyggingu bráðaspítala í Reykjavík. Hún þarf að koma fljótt og við það verður ekki unað að bíða í áratug eða tvo.

Í byrjun ársins kom utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokks fram með þá hugmynd að væntanlegt söluandvirði Símans mætti nýta til nýbyggingar. En hefur verið faglega staðið að mati á kostum og göllum við byggingu á mismunandi stöðum? Hefur fólk lesið vef LSH um kosti nýbyggingar? Þar kemur fram að nálægð við Háskóla Íslands, þekkingarþorp og rannsóknarstofnanir styrki samvinnu við háskólann og verði sú samfella sem eflir mannlíf með grænum grundum, laufgum lundum og útsýni til suðurs, allt frá Nauthólsvík til Reykjavíkurhafnar. Þetta eru sem sagt mjög sérstakar forsendur og heldur furðulegar, herra forseti, og vil ég því beina eftirfarandi spurningum til ráðherra:

Hvers vegna var vinna við deiliskipulag Landspítala – háskólasjúkrahúss við Hringbraut ekki boðin út á almennum markaði, en sjálf hönnunin boðin út?

Hvers vegna var heildarskipulagningu ekki lokið áður en ráðist var í byggingu barnaspítala, eins og lagt var til af Ementor?

Tengist skýrsla breska ráðgjafarfyrirtækisins Weeks frá 1970 þessum fyrirhuguðu framkvæmdum?

Hefur verið gerður samanburður á sparnaði og skilvirkni þjónustu í Fossvogi og við Hringbraut í áætlunum um nýbyggingar?

Er áætlað að taka nýbygginguna við Hringbraut í notkun í áföngum eða í heild, og hvenær er það áætlað?

Hefur verið metin hagkvæmni staðsetningar sjúkrahúss við Hringbraut eða á öðrum lóðum sem taldar eru nær miðju höfuðborgarsvæðisins?

Herra forseti. Þetta eru nokkuð margar spurningar en ég vonast til þess að … (Forseti hringir.) og tíminn er búinn.