131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Húsnæðismál Landspítala -- háskólasjúkrahúss.

523. mál
[14:38]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Herra forseti. Hv. 8. þm. Reykv. s., Lára Margrét Ragnarsdóttir, hefur beint til mín sex spurningum um húsnæðismál Landspítala – háskólasjúkrahúss.

Spurt er: „Hvers vegna var vinna við deiliskipulag Landspítala – háskólasjúkrahúss við Hringbraut ekki boðin út á almennum markaði, en sjálf hönnunin boðin út í samkeppni?“

Nú stendur yfir opið forval á allt að sjö vinnuhópum sem taka munu þátt í samkeppni skipulags svæðisins. Forvalið var boðið út á almennum markaði, m.a. á Evrópska efnahagssvæðinu, í Bandaríkjunum og Kanada auk Íslands. Ekkert hefur verið ákveðið með hönnun mannvirkja enda liggur ákvörðun um hönnun eða byggingar ekki endanlega fyrir.

„Hvers vegna var heildarskipulagningu LSH ekki lokið áður en ráðist var í byggingu barnaspítala, eins og ráðgjafarfyrirtækið Ementor lagði til?“

Ráðgjafarfyrirtækið Ementor skilaði skýrslu sinni til Landspítala í október 2001 en bygging barnaspítala var þá mjög langt komin. Var spítalinn opnaður formlega í janúar 2003. Í skýrslu ráðgjafarfyrirtækisins sem er á heimasíðu Landspítala – háskólasjúkrahúss er því ekki vikið að nauðsyn heildarskipulags áður en ráðist er í byggingu barnaspítala. Bygging barnaspítala var að sjálfsögðu í samræmi við heildarskipulag svæðisins eins og það var þegar ákvörðun um þá byggingu var tekin. Byggingin fellur vel að áformum um frekari uppbyggingu á svæðinu.

„Tengist skýrsla breska ráðgjafarfyrirtækisins Weeks frá 1970, sem byggð var á spám um þróun höfuðborgarsvæðisins um og fyrir þann tíma, ákvörðun um fyrirhugaða nýbyggingu LSH við Hringbraut?“

Tengsl þessarar 35 ára gömlu skýrslu við ákvörðun um byggingu LSH við Hringbraut er óbein, en skýrslan bendir til að þá þegar hafi áhugi á staðsetningu háskólasjúkrahúss verið bundinn við sama svæði og nú hefur verið valið til uppbyggingar. Einn liður í undirbúningsvinnu nefndar þeirrar sem gerði tillögu til mín um staðarval fyrir LSH í janúar 2002 var að skoða tillögur Weeks og þá samninga sem gerðir voru í tengslum við Weeks-áætlun.

„Hefur verið gerður samanburður á sparnaði og skilvirkni þjónustu í Fossvogi og við Hringbraut í áætlunum um nýbyggingar?“

Í áætlun um nýbyggingar hefur ekki verið gerður slíkur samanburður. Úttekt Ríkisendurskoðunar á kostum sameiningar þessara spítala liggur hins vegar fyrir og horft hefur verið til hennar við skipulagsvinnuna.

„Er áætlað að taka nýbygginguna við Hringbraut í notkun í áföngum eða í heild, og hvenær er það áætlað?“

Í skýrslu nefndar um uppbyggingu Landspítala – háskólasjúkrahúss sem gefin var út í apríl 2004 er annars vegar gerð grein fyrir tímaáætlun framkvæmdanna við nýjan landspítala og hins vegar tímaáætlun fyrir forathugun þessa verkefnis. Er ánægjulegt að geta þess að tímaáætlun fyrir forathugun stenst, og með ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá 18. janúar sl. um að heimila áframhaldandi vinnu við undirbúninginn er tryggt að sú áætlun raskist ekki. Tímaáætlun framkvæmda er einnig kynnt í þessari skýrslu en þar kemur í ljós að gert er ráð fyrir að 1. áfanga ljúki árið 2011 en 4. og síðasta áfanga verði lokið milli 2018 og 2020. Að sjálfsögðu ræður fjármögnunin mestu um hvenær tekst að taka sjúkrahúsið í notkun en ljóst er að hagkvæmni næst með því ef hægt væri að hraða þessu verkefni.

„Hefur verið metin hagkvæmni staðsetningar sjúkrahúss við Hringbraut eða á öðrum lóðum sem taldar eru nær miðju höfuðborgarsvæðisins?“

Hagkvæmni staðsetningarinnar var metin af nefnd sem skilaði heilbrigðisráðherra tillögum sínum í janúar 2002 og kynntar hafa verið opinberlega. Í störfum þeirrar nefndar voru skoðaðir ýmsir möguleikar til staðsetningar sjúkrahússins. Niðurstaða lá fyrir í janúar 2002 og hefur verið unnið á grundvelli hennar síðan.

Ég hef nú svarað hv. þingmanni eftir því sem kostur er á svo stuttum tíma um svo viðamikið mál sem hér er um að ræða. Áfram verður unnið að málinu með þeim hætti að kynna jafnóðum þá áfanga sem nást og ákvarðanir um næstu skref. Næst mun val þeirra hópa sem gefst kostur á að taka þátt í skipulagsvinnunni verða gert opinber. Þá stefnir nefnd um uppbyggingu LSH að því að skila mér þriðju áfangaskýrslu sinni nú í vor.

Ég vil í lok máls míns leggja áherslu á að bygging Landspítala – háskólasjúkrahúss er mikilvægt samfélagslegt verkefni. Ég fagna þeirri samstöðu sem náðst hefur um framgang þessa máls þó að ljóst sé að þegar mörg og mismunandi sjónarmið takast á er hætta á að framkvæmdir tefjist. Hingað til höfum við borið gæfu til að vera samstiga í áformum okkar og áætlunum og ég hygg að það séu fá mál sem þjóðin er jafneinhuga um og þörfin fyrir að byggja nýjan hátæknispítala.