131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Húsnæðismál Landspítala -- háskólasjúkrahúss.

523. mál
[14:44]

Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Láru Margréti Ragnarsdóttur fyrir að taka upp málefni Landspítala – háskólasjúkrahúss, nýbyggingarinnar sem við höfum svo sannarlega aldrei tekið neitt mjög langa umræðu um. Það er þó vissulega fagnaðarefni að þessi bygging er að fara af stað.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra spurningar sem vafalaust hefur verið svarað áður: Þegar tekin var ákvörðun um að byggja upp á þessum stað, hver var þá kostnaðurinn við að byggja upp samsvarandi húsnæði í Fossvogi? Var það metið eða borið saman? Nú á nefnd að fjalla um hlutverk Landspítala – háskólasjúkrahúss, hefur reyndar ekki haldið fundi lengi en er búin að boða til fundar núna. Þarf hún ekki að ljúka störfum áður en endanleg niðurstaða liggur fyrir hvað varðar bygginguna og notagildi hennar? Hefur verið tekin ákvörðun um að nota söluandvirði Símans til að byggja upp miðað við þær áætlanir sem hæstv. ráðherra lagði fram?