131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Grunnnet fjarskipta.

531. mál
[14:51]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Ég beini máli mínu til hæstv. samgönguráðherra sem er jafnframt yfirmaður fjarskiptamála af hálfu ríkisins og spyr hver afstaða ráðherra sé til hugmynda um að aðilar sameinist um rekstur eins öflugs grunnnets fjarskipta- og gagnaflutninga fyrir landið allt.

Mikil umræða hefur verið að undanförnu um fjarskiptamálin og afleiðingar þess ef svo óheppilega og ógæfulega mundi fara að Landssíminn yrði seldur. Eins og nú er eru í sjálfu sér öll grunnnet fjarskipta í landinu í eigu opinberra aðila. Þau eru í eigu Símans sem er að 99% í eigu ríkisins, Orkuveitu Reykjavíkur og Landsvirkjunar. Öll grunnnetsfjarskipti eru nánast í eigu þessara þriggja opinberu aðila. Verði hins vegar farið út í að selja Landssímann með grunnnetinu mundi að óbreyttu verða til a.m.k. tvöfalt gagnaflutningskerfi, einkavætt að hluta og með gríðarlegum tilkostnaði sem því fylgir að leggja margfalt slíkt kerfi. Þá mundi bætast mikil offjárfesting og sóun við tví- eða fákeppnisumhverfi sem þá mundi skapast og sem einkavæðing Landssímans mundi þá beinlínis stuðla að. Samkeppni kæmi þá fyrst og fremst til með að snúast um þéttbýlustu svæði landsins og veruleg hætta væri á að fólk í öðrum byggðarlögum yrði afskipt nema til kæmi þá sérstakur ríkisstuðningur og há notendagjöld til að knýja fram lágmarksþjónustu í öðrum landshlutum.

Það er mat margra að miklu vænlegri kostur sé að einkaaðilar geti keppt um að veita þjónustu á jafnræðisgrundvelli á grunnneti sem taki til alls landsins og tryggi öllum sambærilega 1. flokks þjónustu án tillits til búsetu. Mjög áköf umræða hefur verið um það að undanförnu og fulltrúar Símans, fjarskiptafyrirtækjanna og annarra hafa lagt áherslu á að mesta hagkvæmnin væri í því að sameina öll þessi fjarskipti í eitt sem yrði þá eins konar landsfjarskiptanet svipað og þjóðvegakerfi landsins núna, svipað og ákveðið var með Landsnet í raforkulögunum, um að það væri einn sameiginlegur aðili fyrir alla, enn þá sem betur fer opinber aðili sem sér um flutning á rafmagni í kringum landið. Þannig yrði þetta á jafnréttisgrunni.

Þess vegna vil ég heyra frá hæstv. samgönguráðherra hver afstaða hans er til að setja þessar hugmyndir í gang sem svo margir hafa reifað. Ég minni t.d. á heilsíðuauglýsingu í Fréttablaðinu þar sem stendur: „Mundi Sturla selja hringveginn?“ eins og verið væri að selja vegina sjálfa. Gagnaflutningskerfið er í nákvæmlega sömu stöðu og þjóðvegakerfi landsins.