131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Þróun íbúðaverðs.

[15:30]

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka hæstv. ráðherra fyrir að taka þátt í þessari umræðu. Ástæða þess að ég kveð mér hljóðs er þróun íbúðaverðs, og þá sérstaklega íbúðaverðs í Reykjavíkurborg og á höfuðborgarsvæðinu.

Ástæðan er einföld. Slík hækkun kemur einstaklega illa niður á ungu fólki og efnaminna fólki og við erum búin að sjá núna á undanförnum mánuðum og missirum hækkun upp á allt að 20–30%. Ef við skoðum hækkun leiguverðs, sem er erfiðara að mæla, í það minnsta hafa menn ekki jafnnákvæmar upplýsingar, er verið að tala um jafna og þétta hækkun á undanförnum árum og að hækkunin sé orðin allt að rúmlega 70% frá árinu 1997. Þetta er augljóslega mjög erfitt fyrir það fólk sem er að koma sér upp þaki yfir höfuðið í fyrsta skipti og á sama hátt er eðli málsins samkvæmt erfitt fyrir efnaminna fólk sem þarf að leigja að búa við þessar aðstæður.

Á sama hátt er augljós áhætta sem fylgir núverandi ástandi þar sem í rauninni er gert ráð fyrir því að íbúðaverð hækki jafnt og þétt. Það liggur alveg fyrir að niðursveifla á þessum markaði mun hafa alvarlegar afleiðingar og í rauninni alvarlegri afleiðingar en niðursveifla á hlutabréfamarkaði.

Ef við skoðum ástæður þessa eru margar þeirra ekki slæmar. Það er ekki slæmt að hér hafi aukist mjög kaupmáttur á undanförnum árum, það er í sjálfu sér ekki neikvætt að hér hafi aukist aðgangur að ódýru lánsfé og að aðilar sem áður voru ekki á þessum markaði, eins og t.d. bankar, hafi komið inn á hann með þeim hætti sem við þekkjum. Það er í sjálfu sér heldur ekki slæmt að hækkanir hafi komið á einstaka húsnæði vegna staðsetningar og ástands.

Það liggur hins vegar alveg fyrir að hér er ýmislegt sem opinberir aðilar geta gert til að halda þessum hækkunum í skefjum. Til að mynda horfir sá sem hér stendur til þess að á undanförnum 10 árum hefur verið viðvarandi lóðaskortur í Reykjavíkurborg. Fyrrverandi borgarstjóri, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, lýsti því yfir þegar hún tók við að hún teldi að hér væri um að ræða að Reykjavíkurborg mundi tapa á því að stækka. Í ofanálag kom hér upp, eins og menn þekkja, uppboðsstefna sem þýðir á mæltu máli að aðili sem byggir sér íbúð í fjölbýli borgaði áður fyrr um 500 þús. kr. í lóðarkostnað en nú er kostnaðurinn þetta 4–6 millj. kr.

Ef einhver trúir því ekki að um sé að ræða lóðaskort á þessu svæði þurfa menn ekki annað en að líta til mannfjöldaþróunar. Á undanförnum 10 árum hafa verið mestu fólksflutningar inn á höfuðborgarsvæðið í Íslandssögunni. Íslendingum hefur fjölgað um 10% á þessum tíma. Í Reykjavík hefur íbúum fjölgað um 13% ef menn taka Kjalarnes inn í, og á sama hátt hefur í því sveitarfélagi sem hefur haft lóðaframboð fjölgað um 57%. Ef menn skoða brottflutta umfram aðflutta hafa þeir verið mun fleiri í Reykjavík á undanförnum fjórum árum, þ.e. 1.300 manns.

Þetta er ekki bara alvarlegt í núinu, virðulegi forseti, því að það liggur alveg fyrir að allar mannfjöldaspár segja okkur að fjölga muni á höfuðborgarsvæðinu. Menn nefna tölur eins og 40 þús. manns til ársins 2030 þannig að þetta er ekki bara vandamál í núinu heldur liggur alveg fyrir að ef framboð á lóðum eykst ekki verður vandinn enn þá stærri.

Ef einhver trúir því, virðulegi forseti, að framboð á lóðum hafi ekki áhrif á verð fasteigna ætti sá hinn sami að beita sér fyrir því að endurskoða allar hagfræðikenningar. Hagfræðin byggir nefnilega á hinum frægu kenningum um framboð og eftirspurn.

Það er hins vegar að mörgu fleiru að hyggja og að sjálfsögðu hljótum við að hyggja að því hvort við eigum við þessar aðstæður, þar sem bankar hafa komið jafnmyndarlega og raun ber vitni inn á þennan markað, að endurskoða hlutverk ríkisins á markaðnum. Ýmislegt fleira má nefna, t.d. hljótum við líka að skoða þá aðstoð sem við erum með við þá aðila sem kaupa sér húsnæði í fyrsta skipti, hvort rétt sé að viðhalda því kerfi sem er við lýði, vaxtabótakerfinu, sem nýtist ekki sem skyldi við þær aðstæður sem við þekkjum nú.

Ég vil þess vegna byrja á því að spyrja ráðherrann þriggja spurninga:

1. Hverjar telur ráðherrann vera ástæður mikillar hækkunar fasteignaverðs?

2. Telur ráðherra að sveitarfélög hafi með aðgerðum sínum eða aðgerðaleysi stuðlað að hækkun lóðaverðs, og hyggst ráðherra grípa til aðgerða vegna þessa?

3. Telur ráðherra að hlutverk Íbúðalánasjóðs kunni að breytast í ljósi hræringa á íbúðalánamarkaði?