131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Þróun íbúðaverðs.

[15:41]

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Fasteignir hækka fyrir austan, þær hækka fyrir norðan, þær hækka í Árborg og á Akranesi og í öllum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Það er hins vegar aðeins eitt sem hv. þingmaður, borgarfulltrúinn Guðlaugur Þór Þórðarson, sér og það er lóðaverð í Reykjavík. Ég held að það sé kominn tími til að hv. þingmaður átti sig á því að við erum, félagarnir, komnir yfir Vonarstrætið og á vettvang landsmálanna. Hér eru þau til umfjöllunar.

Þó að hækkandi lóðaverð hafi vissulega einhver áhrif á fasteignaverð vita allir að það er ekki meginskýringin á fasteignahækkunum að undanförnu. Nýbyggingar eru aðeins 10% af fasteignamarkaðnum og lóðaverð nýbygginga þar af leiðandi langt innan við 5% af þessum markaði. Það er sú ákvörðun ríkisstjórnar Íslands að ráðast í að auka verulega framboð á lánsfjármagni til íbúðakaupa á mestu umsvifatímum í efnahagslífi Íslendinga sem hlaut að leiða til verulegra hækkana. Allir sáu það fyrir og vissu, og ríkisstjórnin gekk að því með opin augun.

Nú, þegar verðið hefur farið svo hátt upp, er full ástæða til að vara við því að hér geti verið of langt gengið og að menn þurfi að vera viðbúnir niðursveiflum. Þetta eru eflaust erfiðir tímar fyrir þá sem eru að festa fé í íbúðum í fyrsta sinn og þurfa að skuldsetja sig svo mikið sem raun ber vitni. Að ætla að bregðast við því með einhverri opinberri verðlagsnefnd um lóðaverð í sveitarfélögum er hins vegar fásinna. Þá fá menn bara úthlutað á einhverju opinberu, niðurgreiddu verði og fara svo að braska með úthlutunina eins og hvern annan happdrættisvinning á byggingamarkaðnum. Menn voru farnir að stunda það. Ég vísa þeim lausnum hæstv. félagsmálaráðherra algjörlega á bug.

Ef menn vilja auka lóðaframboð hér, þar sem eftirsóttast er, í miðborginni og vesturbænum, er auðvitað einfaldast að flytja bara innanlandsflugið til Keflavíkur og gefa 10–15 þús. manns tækifæri á því að búa í hjarta borgarinnar (Forseti hringir.) og skapa það lóðaframboð hér sem þarf. (Forseti hringir.) Ég lýsi því yfir að ég er tilbúinn til þess með hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni að flytja um það tillögu á Alþingi Íslendinga.

(Forseti (HBl): Ég vil biðja hv. þingmenn að fara ekki of langt fram úr ræðutíma sínum.)