131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Þróun íbúðaverðs.

[15:43]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir að beina sjónum okkar að þessu viðfangsefni. Ég get alveg fyrir mitt leyti fyrirgefið honum að ruglast á Ráðhúsinu og þingsalnum. Ég á erfiðara hins vegar með að fyrirgefa honum að reyna ekki að grafast fyrir um raunverulegar orsakir þeirrar verðsprengingar sem er að verða hér í landinu öllu á íbúðarhúsnæði, allt að 50% á undanförnum tveimur árum. Og ég get ekki fyrirgefið að hann skuli hvergi minnast á fasteignaheildsala, braskara, sem eiga hér sök á, að því er talið er.

Ég tel að við þurfum að beina sjónum okkar að hlut bankanna í þessu efni. Ég vek athygli á því að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur farið þess á leit að gerð verði ítarleg úttekt á þessu máli og hefur lagt fram sérstakt þingmál um eignatengsl bankanna inn á fasteignamarkaðinn. Ef bankarnir koma þar beint að máli með beinu eignarhaldi, eða óbeint með því að fjármagna fasteignaheildsalana, eru þeir brotlegir við landslög. Það er undrunarefni að Fjármálaeftirlitið hafi ekki fyrr tekið á þessum málum á fastari hátt en gert hefur verið.

Þá vil ég jafnframt lýsa furðu minni á því að þingmaður Sjálfstæðisflokksins skuli taka undir með samtökum eða samráðsvettvangi banka og verðbréfafyrirtækja í aðför þessara aðila að Íbúðalánasjóði. Það er Íbúðalánasjóður sem hefur haft forgöngu um að færa vexti niður til hagsbóta fyrir íbúðakaupendur. Ég get ekki tekið undir með þingmanni Samfylkingarinnar sem gagnrýnir Íbúðalánasjóð fyrir þetta lofsverða framtak. Ég gagnrýni hins vegar bankana og samráðsvettvang þeirra fyrir að reyna að bola út af markaði þeim aðila sem er þeim skeinuhættastur.