131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Þróun íbúðaverðs.

[15:48]

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Fréttir hafa borist af því í vikunni að íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hafi hækkað í janúarmánuði einum um 5,1% að meðaltali. Á undanförnu ári hefur íbúðaverð hækkað um tæp 28%.

Við þessar aðstæður er ástæða til að hafa áhyggjur af stöðu þeirra sem í fyrsta sinn eru að leigja eða fjárfesta í fasteign. Aðgerðum stjórnvalda í húsnæðismálum hefur verið ætlað að tryggja öryggi og jafnrétti í þeim málaflokki, það er tilgangur laga um húsnæðismál að auka möguleika fólks til að eignast eða leigja húsnæði á viðráðanlegum kjörum.

Til að mæta því hlutverki enn betur en hingað til hefur Alþingi nýverið samþykkt að hækka lánshlutfallið hjá Íbúðalánasjóði í 90%, upp að ákveðnu hámarki. Á sama tíma hefur gjörbreyting orðið á möguleikum almennings til að fjármagna íbúðakaup á góðum kjörum, einkavæðing ríkisbankanna og innkoma þeirra á íbúðalánamarkaðinn hefur leitt í ljós að þörfin fyrir aðgerðir af ríkisins hálfu hefur breyst. Í veigamiklum atriðum má ganga svo langt að segja að þörfin hafi horfið algjörlega. Þetta á sérstaklega við um þau lán sem sjóðurinn veitir í beinni samkeppni við viðskiptabankana. Hverjum dytti í hug við núverandi aðstæður að stofna Íbúðalánasjóð til þess að veita slík lán?

Breyttar aðstæður hljóta að kalla á endurskoðun á hlutverki ríkisins í málaflokknum. Auk þess sem ég hef áður nefnt er mikilvægt að aðrar aðgerðir opinberra aðila sem ætlað er að auðvelda fyrstu íbúðakaup verði teknar upp og skoðaðar. Vaxtabótakerfið er til að mynda langt frá því að vera gallalaust og sú spurning hlýtur að verða æ áleitnari hvort þeim fjármunum sem í það kerfi er varið mætti ekki verja með markvissari og árangursríkari hætti.

Ég vil loks taka undir með þeim sem minnst hafa á hlutverk sveitarfélaganna í þessum málum. Ef einhver markaður á Íslandi lýtur lögmálum framboðs og eftirspurnar þá er það fasteignamarkaðurinn. Sveitarfélögin og samtök þeirra hljóta að þurfa að íhuga vandlega hvað þau geta gert til að koma til móts við þarfir þeirrar kynslóðar sem um þessar mundir þarf að kaupa sína fyrstu fasteign.