131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Þróun íbúðaverðs.

[15:57]

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. félagsmálaráðherra sérstaklega fyrir góð svör. Ég fagna því að Rannsóknarsetri á Bifröst verði falið að skoða málið og að skoðað verði hvernig hægt sé að koma í veg fyrir að sveitarfélögin stuðli að hækkun fasteignaverðs og nýti lóðaskort og þá neyð sem honum fylgir sem tekjustofn.

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli á nokkru. Hér komu tveir þingmenn og gerðu athugasemdir við að hér væri rætt um málefni Reykjavíkurborgar. Það var hv. þm. Ögmundur Jónasson, þingmaður Reykvíkinga, og hv. þm. Helgi Hjörvar, einnig þingmaður Reykvíkinga. Það vill svo til að hv. þm. Helgi Hjörvar er í Samfylkingunni sem hafði sem sérstakt baráttumál að hér yrði borgarstefna tekin upp á vettvangi þingsins, borgarstefna.

Ég vil segja hv. þingmanni að ég hika ekki við að taka upp málefni Reykvíkinga og Reykjavíkurborgar hvenær sem mér dettur það í hug. Mér finnst að við ættum að gera meira af því. En hv. þm. Ögmundur Jónasson og hv. þm. Helgi Hjörvar töluðu um braskara, að það ætti að taka á þessum bröskurum. Ég vek athygli hv. þingmanna á því að R-listinn hefur verið að braska með lóðir í Norðlingaholti með einkaaðilum. Og hvað skyldu þeir hafa grætt? Eina, tvær milljónir? Nei. Rúmlega 800 millj. kr. í það minnsta, á lóðabraski. Það verður gott að sjá þessa aðila, varaborgarfulltrúann og hv. þm. Helga Hjörvar, beita sér fyrir því að braskið verði stöðvað. Á sama hátt hefur hækkun á fasteignamati og hækkun fasteignaskatta, afleiðingar lóðaskortsstefnunnar, hækkað tekjur Reykjavíkurborgar af fasteignagjöldum um 114%.

Virðulegi forseti. Ég hlakka til að sjá hv. þingmenn taka til hendinni. Við þurfum ekki bara að taka til hendinni hér á þingi til að mæta þessu heldur svo sannarlega líka hinum megin við Vonarstrætið.