131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Staðan í viðræðum um verka- og tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga.

[10:48]

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Það er töluvert liðið á annað ár frá því að hæstv. félagsmálaráðherra nálgaðist mikilvægt verkefni af miklum metnaði, að efla sveitarstjórnarstigið. Því miður sýnist mér staðan á ráðherrabekkjunum vera táknræn fyrir verkefnið. Hæstv. félagsmálaráðherra hefur staðið einn í verkinu, hann hefur ekki haft stuðning hinna ráðherranna í það. Þess vegna er staðan í málinu sú sem hún er í dag, við erum að reyna að plástra saman einhverjum bráðabirgðalausnum varðandi tekjustofna sveitarfélaganna þrátt fyrir að auðvitað hefðu menn átt að skoða málið í heild sinni, taka tekjustofnana alla upp og gera nýtt kerfi samhliða því sem unnið er að verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga, sem einnig er býsna mikilvægt. Síðast en ekki síst er verkefnið um að sameina sveitarfélög, gera þau stærri og öflugri þannig að þau geti tekið við verkefnum. Til að ná settu marki þarf hæstv. félagsmálaráðherra að taka á öllum þessum þáttum. En hæstv. ráðherra getur þetta að sjálfsögðu ekki einn.

Ég er sannfærður um að hæstv. ráðherra hóf verkið á þann hátt að hann vildi ná settu marki. Því miður hafa liðsmenn hans í ríkisstjórninni ekki stutt hann til þessa mikilvæga verks. Ég held því, frú forseti, að við verðum að bíða enn um sinn með að ná því marki að sveitarfélögin beri þann sess í okkar samfélagi sem þeim ber vegna þess að þau eru mikilvæg stjórnsýsla, á þeim byggist meira og minna þróun samfélagsins. Þess vegna eru það kaldar kveðjur þegar hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir, sem á sæti í verkefnisstjórninni, sendir þau skilaboð að aðalvandinn sem blasi við í efnahagsmálum þjóðarinnar sé ábyrgðarleysi sveitarfélaganna. Ja, ég segi ekki annað en það væri vert að hv. þingmaður liti sér nær.