131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað.

191. mál
[11:06]

Bryndís Hlöðversdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég heyri það á sumum hv. þingmönnum, a.m.k. tveir þeirra hafa sagt að þeir eigi erfitt með að átta sig á út á hvað þetta mál gengur. Ég lái þeim það ekki því þetta hljómar sem mjög lagatæknilegt mál, en í rauninni varðar þetta ákveðin grundvallaratriði. Það er einmitt þess vegna, virðulegi forseti, sem ég vil meina að hv. allsherjarnefnd hafi komist að algjörlega samhljóða niðurstöðu í nefndaráliti sínu á sínum tíma.

Segja má að allsherjarnefnd segi eiginlega við ráðuneytið sem leggur það til að í raun sé heimilt að birta þjóðréttarsamninga eingöngu á öðru tungumáli þegar frumtextinn er ekki til á íslensku, með öðrum orðum að koma sér hjá því að þýða þennan texta. Þegar það er gert er um að ræða frávik frá þeirri óskráðu meginreglu að allur texti Stjórnartíðinda skuli vera á íslensku. Bent hefur verið á það í umsögnum, m.a. frá Lögmannafélaginu og lagadeild eða dósent við lagadeild Háskóla Íslands, að efast mætti um að slíkur texti hefði í rauninni nokkurt lagagildi þegar til þess kæmi að hann yrði skoðaður sem slíkur. Undir þetta tók hv. allsherjarnefnd í nefndaráliti sínu, sem ég ítreka enn og aftur að var algjörlega samhljóða. Með öðrum orðum töldum við að ráðuneytið væri að ganga of langt með því að koma sér hjá því að þýða slíkan texta.

Við höfum ákveðinn skilning á því og það var rætt heilmikið í allsherjarnefnd að þegar um er að ræða sérstaklega texta sem varðar t.d. flugöryggismál og er oft á tíðum eingöngu notaður á frummálinu eða á ensku, þá svona praktískt séð sé þjónustan ekki veitt í þeim tilgangi að þýða slíkan texta, en ef við gerum það ekki erum við eigi að síður að víkja frá þeirri óskráðu meginreglu um að allur texti Stjórnartíðinda skuli vera á íslensku og geti aðeins þannig orðið grundvöllur laga.

Í kjölfar þessarar umræðu í allsherjarnefnd fengum við strax í upphafi, virðulegi forseti, allar þessar ástæður sem ráðuneytið gaf sér fyrir því að nauðsynlegt væri að heimila þetta frávik. Við féllumst einfaldlega ekki á þessi rök ráðuneytisins. Í mínum huga hefur ekkert breyst í málflutningi þeirra sem gefur tilefni til þess að hvika frá þeim varnagla sem hv. allsherjarnefnd sló á sínum tíma.

Allsherjarnefnd gerir með öðrum orðum breytingartillögu við frumvarpið eins og það kom frá ráðuneytinu, sem felur það í sér að aðeins megi nota tilvísunaraðferðina ef um er að ræða reglur sem hafa verið birtar og þýddar á íslensku. Við viljum halda okkur við þessa grundvallarreglu. Um þetta var öll allsherjarnefnd sammála, meiri hluti og minni hluti og við samþykktum slíka breytingartillögu á hinu háa Alþingi fyrir nokkrum dögum, virðulegi forseti.

Síðan gerist það eftir að hv. allsherjarnefnd hefur komist að þessari niðurstöðu að ráðuneytið er enn að reyna að hafa áhrif á okkur með það að þetta sé of langt gengið, það sé svo mikið óhagræði af því að þurfa að þýða alla þessa texta. Þetta sé flókinn tæknilegur texti og menn noti hann hvort eð er á ensku o.s.frv. Þetta kaupir hv. formaður allsherjarnefndar, hv. þm. Bjarni Benediktsson, og hefur nú flutt breytingartillögu við breytingartillögu allsherjarnefndar, þar sem sú tillaga gengur út á þá viðbót að það eigi ekki við um birtingu samkvæmt 2. mgr. 4. gr., þegar um er að ræða tilvísunaraðferðina, nema annað verði ákveðið með lögum.

Þarna er hv. þingmaður að gera þá tillögu að það megi með ákveðnum lögum heimila birtingu erlends frumtexta milliríkjasamnings. Ég leyfi mér að efast um það, virðulegur forseti, að þetta standist skoðun. Ég er þeirrar skoðunar.

Þegar maður skoðar skýr ákvæði EES-samningsins, ég er að vísa til 1. mgr. 129. gr. samningsins, þá segir þar, með leyfi forseta:

„Textar gerða, sem vísað er til í viðaukunum, eru jafngildir á dönsku, ensku, frönsku, grísku, hollensku, ítölsku, portúgölsku, spænsku og þýsku, eins og þeir birtast í Stjórnartíðindum Evrópubandalagsins, og skulu með tilliti til jafngildingar gerðir á finnsku, íslensku, norsku og sænsku.“

Ég er þeirrar skoðunar, virðulegur forseti, og það hélt ég satt besta að segja að öll hv. allsherjarnefnd væri eftir umræðurnar í nefndinni að ekki væri heimilt í almennu lögunum, eins og þessi birtingarlög eru sem heita núna lög um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað og eru almenn lög, að heimila frávik frá skýrum bókstaf milliríkjasamnings sem hefur verið fellt úr lögum og er þar af leiðandi sérlög.

Ég efast því um að þetta standist og tel að þarna sé verið að ganga allt of langt, virðulegi forseti, í því að heimila íslenskum stjórnvöldum að koma sér hjá þeirri skýru skyldu sem þau hafa til að þýða þessar gerðir.

Það er rétt, virðulegi forseti, að koma aðeins inn á það í lokin að til hv. allsherjarnefndar kom minnisblað um hvaða umræddu gerðir þetta væru sem menn væru í vandræðum með að þýða og þetta væri eitthvað voðalega mikið og tæknilegt og erfitt að þýða. Það er talað um nýlega aðild EES- og EFTA-ríkjanna að flugöryggisstofnun Evrópu. Þar vísa menn til þess að þetta sé texti sem nánast eingöngu sé notaður á enskri tungu. Það má vel vera, en eigi að síður er skyldan til þýðingar skýr í mínum huga og hana á að framkvæma. Það er sagt að þetta séu reglur sem mundu verða dæmigerðar fyrir þær sem hentugast er að innleiða með tilvísunaraðferð og það mundi hljótast af því verulegur óþarfa kostnaður að þýða þær allar á íslensku, enda mundi enginn nota þær á því tungumáli.

Enn og aftur, við erum að víkja samt frá mjög mikilvægu grundvallaratriði um að allur texti Stjórnartíðinda skuli vera á íslensku.

Síðan er vísað til þess að fyrir utan járnbrautargerðirnar eru þrjár EES-gerðir sem teknar hafa verið upp í samninginn óþýddar. Það er tilskipun um íhlut í ökutæki á tveimur eða þremur hjólum. Það er reglugerð um evrópska þjóðhagsreikninga. Síðan er það tilskipun um flutning á hættulegum efnum á vegum.

Ég leyfi mér að spyrja, virðulegi forseti:

Er t.d. tilskipun um flutning á hættulegum efnum á vegum og um flutning á hættulegum farmi — er það eitthvað sem allt í lagi er að hafa bara á frummálinu? Ég segi nei.

Jafnvel, virðulegi forseti, þó að freistandi sé að skapa sér þetta hagræði, þá erum við með því að víkja frá mjög mikilvægu grundvallaratriði um að texti Stjórnartíðinda og íslensk lög skuli alltaf birta og grundvöll þeirra á íslenskri tungu.

Ég held það hafi verið rifjað upp hér við 2. umr. að athugasemdir komu líka frá íslenskri málnefnd um þetta. Ég hef meiri áhyggjur persónulega og mestar áhyggjurnar af því að við séum með þessu að búa það hreinlega til að þetta standist ekki þegar á það kann að reyna fyrir dómstólum.

Ég held að við eigum ekki, virðulegi forseti, að vera að búa til slík frávik sem eru vafasöm. Ég bið hv. formann allsherjarnefndar, af því að ég sé að hann hefur beðið um andsvar eða hugsanlega er á leið í aðra ræðu, að svara þeirri spurningu hvort hann telji það ekki vafasamt að heimilt sé að veita þetta frávik frá meginreglunni sem kveðið er á með milliríkjasamningi og lögum byggðum á honum, sem er EES-samningurinn, í almennum lögum um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað.

Ég hef mikla fyrirvara við slíkar breytingar. Þess vegna munum við, fulltrúar Samfylkingarinnar í allsherjarnefnd, greiða atkvæði gegn breytingartillögu hv. þm. Bjarna Benediktssonar, formanns allsherjarnefndar. Væntanlega munum við ekki treysta okkur, þrátt fyrir að hafa í grundvallaratriðum verið mjög sátt við frumvarpið, sérstaklega eftir að nefndin gerði breytingar á því, til þess að styðja frumvarpið heldur, verði sú tillaga samþykkt. Við munum að sjálfsögðu styðja frumvarpið ef það verður samþykkt í þeirri mynd sem það kom upphaflega frá hv. allsherjarnefnd eftir 2. umr.