131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað.

191. mál
[11:16]

Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem fram kom í upphafi máls hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur. Þetta er dálítið tæknilegt mál og þess vegna er mjög auðvelt að þvæla það í tæknilegri umræðu.

Ef við stöldrum fyrst við það hvort eðlilegt sé að birtir séu í Stjórnartíðindum yfir höfuð textar milliríkjasamninga á erlendum tungumálum þá er það þannig, samkvæmt frumvarpinu sem hv. þingmaður studdi. Alveg frá upphafi var það í C-deildinni samkvæmt 4. gr., lagt til og allsherjarnefnd alfarið sammála um að það væri heimilt að birta eingöngu erlenda frumtexta milliríkjasamnings ef samningurinn varðaði afmarkaðan hóp manna sem með sanngirni mætti ætlast til að skildi hið erlenda mál vegna menntunar sinnar eða annarra sérhæfingar. Þetta er þarna inni, var þarna inni og hefur ekki verið neinn ágreiningur um þetta atriði. (BH: ... með breytingartillögunni.)

Síðan ákveður nefndin að taka til sérstakrar skoðunar atriði sem vörðuðu birtingu í A-deildinni, þ.e. hvort það mætti taka upp í A-deildina birtingu sem vísaði til birtingarinnar á erlenda frumtextanum. Þar staldraði allsherjarnefndin við og sagði: Ja, við skulum ekki ganga of greitt, stígum varlega til jarðar. Við viljum þetta ekki nema það sé búið að tryggja íslenska þýðingu í C-deildinni.

Frávikið sem ég mæli hér fyrir varðar eingöngu það að löggjafinn sjálfur geti ákveðið að óþarft sé að gera þýðingu á viðkomandi efni úr C-deildinni að skilyrði. Ég trúi því og treysti að hv. þingmaður og þingmenn almennt treysti Alþingi til að meta þetta. Hér er ekki verið að opna almenna heimild fyrir framkvæmdarvaldið til að birta í A-deildinni á frumtextanum heldur mun Alþingi taka það til sérstakrar skoðunar hverju sinni.