131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað.

191. mál
[11:24]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það kemur nokkuð ankannalega fyrir sjónir, manni utan allsherjarnefndar, að hér skuli formaður nefndarinnar flytja einn og sjálfur breytingartillögur eftir að önnur umræða hefur farið fram, en ekki nefndin öll eða a.m.k. meiri hluti hennar. Hv. þm. Bjarni Benediktsson upplýsti að utanríkisráðuneytið, sem flytur ekki þetta mál í upphafi, þ.e. utanríkisráðherra hæstvirtur, heldur dómsmálaráðherra, hafi rætt sérstaklega við hann um að það kunni að vera dýrt og óhagræði af því að hafa þetta eins og allsherjarnefndin var þó búin að ákveða og samþykkja í atkvæðagreiðslu eftir 2. umr.

Þá spyr maður að því, forseti, hvaða neyðarástand sé hér á ferðinni eða þau gríðarlegu mistök í uppsiglingu sem valda því að hæstv. utanríkisráðherra kallar formann allsherjarnefndar sérstaklega á sinn fund til að koma í veg fyrir þetta með heill og gagn þjóðarinnar og ókominna kynslóða fyrir augum. Það kemur í ljós að það er of dýrt að mati hæstv. utanríkisráðherra og nú hv. formanns allsherjarnefndar að íslenskir þegnar, íslenskir borgarar, geti lesið lög sín á íslensku.

Það á auðvitað ekki að gera lítið úr þeim vanda sem skapast við það að við eigum löggjöf sameiginlega með öðrum þjóðum sem tala aðra tungu. Ég minni í þessu samhengi á að ég flutti í fyrra tillögu sem þá var vísað til ríkisstjórnarinnar um að kanna réttarstöðu íslenskrar tungu Það var ekki frumvarp heldur þingsályktunartillaga. Þessari tillögu var nokkuð vel tekið á þinginu. Hún var sum sé ekki svæfð í nefnd heldur vísað til ríkisstjórnarinnar. Nú er mig farið að gruna að það sé eiginlega verra en að fá mál séu svæfð í nefnd því að ríkisstjórnin hefur ekkert aðhafst í þessu, hvorki forsætisráðherra, sem minnst var sérstaklega í þeirri tillögu, né menntamálaráðherra, sem málið er skylt, og séu þeir báðir hæstvirtir.

Þar var m.a. getið um þá þörf sem væri á að skapa, fyrst og fremst í stjórnarskrá eða með sérstökum lögum, gjarnan bæði í stjórnarskrá og með sérstökum lögum, ákveðnar leiðbeiningar eða reglur um hvernig við viljum haga okkur hér á landi í næstu framtíð. Í fyrsta lagi hvað varðar stöðu íslenskunnar. Í öðru lagi varðandi íslenskt táknmál fyrir heyrnarlausa, sem telst vera móðurmál ákveðins hóps af Íslendingum. Í þriðja lagi varðandi stöðu nýbúamála, hvernig við ætlum að koma þeim fyrir. Í fjórða lagi varðandi stöðu mála sem geta talist alþjóðamál, sem við erum hér að takast á við.

Ég held að þetta mál og reyndar önnur sem hér hafa komið upp, t.d. tillaga 15 sjálfstæðismanna um að fella niður þýðingarskyldu á útsendingum í sjónvarpi, mál sem eru sífellt að koma upp og varða núninginn milli móðurtungu okkar og annarra mála, séu afleiðing af þróun alþjóðavæðingar og auknum samskiptum okkar við útlönd á síðari árum. Þau mál sýna að full þörf er á að samþykkja þá tillögu sem ég flutti um það efni eða aðra í hennar dúr. Hún var nú ekki viðameiri en svo að hún gerði ráð fyrir að skipuð yrði nefnd til að kanna þessa hluti og fara í gegnum þá, m.a. í því að fara í gegnum ákveðna texta sem ég tók til, einn þeirra fróðlegan eftir Þór Vilhjálmsson, lögfræðing og lagaprófessor með meiru.

Hér er auðvitað þess að gæta, og þess vegna er ég hér kominn fyrst og fremst, að okkur ber að gæta íslenskra hagsmuna. Íslenskir hagsmunir eru m.a. hagsmunir íslenskrar tungu, að íslensk tunga sé móðurmál á landinu og njóti þeirrar stöðu sem eðlilegt er að hún njóti.

Minnt skal á að í fjölmörgum stjórnarskrám annarra ríkja, einkum þeim nýlegri, er þetta tekið fram um móðurtungu, oft í tengslum við ákvæði um mál minni hluta eða mál sem aðrir íbúar í landinu tala, en þó ekki endilega. Þetta er t.d. tekið fram í stjórnarskránni frönsku og hefur verið, hygg ég, allt frá 1792. En ég þori þó ekki að fara með það því að ég hef ekki rannsakað það nákvæmlega. Þar er franska sum sé þjóðartunga Frakka.

Þetta ber okkur að hafa í huga og mér finnst á móti þessu gengið með þeirri tillögu sem hæstv. utanríkisráðherra hefur nú látið hv. formann allsherjarnefndar flytja hér eftir 2. umr. málsins um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað.

Það er auðvitað ekkert bara þetta. Fyrir utan þau rök sem hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir færði hér fram um að þetta væri sennilega óleyfilegt samkvæmt þeim samningum sem við þegar höfum gert við erlendar þjóðir, innan ramma Evrópska efnahagssvæðisins, er auðvitað spurning hér um jafnræði þegnanna. Þegar lög eru sett og samningar staðfestir eiga þegnarnir að eiga kost á því, með þeim venjulegu hæfileikum sem þeir eru útbúnir sem Íslendingar, að kynna sér þessi gögn. Fyrir því er, forseti, gert ráð í almennum reglum sem m.a. tiltaka að menn sem brjóta lög geti ekki fært það sér til afsökunar að hafa ekki séð þau. Af þeim sökum hvílir mjög rík skylda á stjórnvöldum að lögin séu aðgengileg. Þess vegna eru Stjórnartíðindi og Lögbirtingablaðið gefin út. Þess vegna er t.d. lagasafnið á netinu. Það varð ofan á fyrir einum 10 árum, eftir að gerðar höfðu verið sérstakar athugasemdir við það að í upphafi átti að gera safnið að þætti í rekstri fyrirtækis þannig að menn ættu ekki kost á því að komast í lagasafnið á netinu. Það hefur nú verið lagað og það er samkvæmt þessum sjónarmiðum um samskipti yfirvalda og borgara í landinu.

Enn er það auðvitað röksemd í þessu að ef lögin liggja ekki fyrir á þeirri tungu sem töluð er í landinu og er þar móðurtunga er ekki hægt að tala um að jafnaðarreglan sé í gildi. Menn halda stundum að allir Íslendingar tali ýmis önnur tungumál en íslensku. Að einhverju leyti gera þeir það. Menn geta keypt í matinn og kannski fengið sér bjór í útlöndum á einhverju þeirra tungumála sem skiljast þar, ensku, skandinavísku eða einhverri blöndu af þessum málum og heimamálinu, en jafnvel kunnátta í ensku er ekki eins almenn hér og við gjarnan hrósum okkur af. Þegar komið er að ensku af því tagi sem viðgengst í lagatextum skilur ekki mikill meiri hluti manna það mál vel. Bara af þeim ástæðum verður að mæla á móti því að enska sé jafngild íslensku með þessum hætti sem hér stendur til þó að um afmörkuð atriði sé að ræða.

Ég vil segja það að í þeirri tillögu sem ég flutti og ríkisstjórnin hefur nú til meðferðar, þótt lítill árangur hafi sést af þeirri meðferð, var líka rætt um tiltekna þjónustu við þegnana. Í minni tillögu var rætt um það að í tilvikum nýbúa og útlendinga væri íslenska ríkinu skylt að annast ákveðna þjónustu við þá þar sem þeir skildu ekki íslensku, annaðhvort alls ekki eða þá ekki nógu vel til að geta kynnt sér lög og reglur sem yfirvöld gefa út. Yfirvöld ætlast hins vegar til þess að ekki bara borgarar landsins heldur líka þeir útlendingar sem hér eru staddir fari eftir umræddum lögum og reglum.

Meðan við höfum ekki neina slíka þjónustu í gangi er í raun og veru varasamt að fara á nokkurn hátt út á þá braut sem gert er í þessu frumvarpi með samþykki allrar nefndarinnar, hvað þá það sem varðar hina umdeildu tillögu, án þess að um leið sé mælt fyrir um það að innan ráðuneytanna eða stjórnvaldsstofnana eða á einhverjum sérstökum stað sé hægt að leita til túlka og þýðenda sem geti leyst úr ákveðnum vandamálum sem upp geta komið við að lesa texta á ensku eða hvaða öðru tungumáli sem vera skal. Það er ábyrgðarlaust að setja ekki fram slíkar reglur.

Hv. þm. Bjarni Benediktsson minntist á að það hlyti að vera í lagi að Alþingi sjálfu yrði falið að ákveða þetta í hvert skipti. Í því fannst mér eins og væri sá tónn að þeir sem væru á móti tillögu hans treystu þá ekki Alþingi og alþingismönnum. Það er auðvitað fráleitt. Það er hins vegar svo að þó að ég hafi bara verið stuttan tíma hér á þingi, þó jafnlangan og hv. þm. Bjarni Benediktsson og kannski ívið lengri reyndar, hef ég þegar séð það í ýmsum stjórnarfrumvörpum að tilmæli um að hagræðingarráðstöfunum sem koma niður á íslenskri tungu og jafnrétti þegnanna í landinu er eins og laumað inn í langa lagabálka. Oft er erfitt að veita þeim einhverja fyrirstöðu því að þau lög sem hér eru helst samþykkt koma ekki frá þingmönnum sjálfum og hafa fengið mismikla meðferð í nefndum á þinginu.

Það er eins og ég segi eðlilegt að þetta sé rætt. Það ætti að gera á þeim vettvangi sem ég lagði til, í sérstakri nefnd sem stjórnvöld veldu, launuðu og byggju málið í hendurnar á. Hún gæti síðan útbúið reglur fyrir okkur að íhuga, m.a. með sérstöku stjórnarskrárákvæði sem síðan hefði afleidd lög.

Ég vil líka segja að það er eðlilegt að menn líti til einhvers konar hagræðis á þessu sviði, ég get vel skilið það, en ég skil hins vegar ekki þessa sérstöku aðferð sem hv. þingmaður hefur við þetta mál, og hæstv. utanríkisráðherra. Það er af sem áður var þegar Sjálfstæðisflokkurinn taldi sig vera sérstakan málsvara íslensks þjóðernis, og þar á meðal íslenskrar tungu, í krafti þeirrar sögu sem hann vissulega á. Nú er það hæstv. utanríkisráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, og hv. þm. Bjarni Benediktsson, ein af vonarstjörnum þessa flokks, sem ætla sér að spara á íslenskri tungu og jafnrétti þegnanna. Í gær eða fyrradag vildu 15 sjálfstæðismenn aftur gefa sérstakan afslátt á íslenskri tungu og á jafnrétti þegnanna, meira að segja á börnum og unglingum í landinu, vegna þess að þeim þótti það annars vegar líklegt til vinsælda og hins vegar þótti þeim það létta á rekstri Skjás eins í eigu Símans, sem er fyrirtæki sem Sjálfstæðisflokknum er ákaflega annt um að komist í hendurnar á réttum mönnum fyrr eða síðar. Þessir sjálfstæðismenn tóku undir dellumakarí sem forstöðumenn Skjás eins höfðu komið sér upp til að spara 25 þús. kr. á hvern útsendan knattspyrnuleik og spara einnig hinum svokölluðu gestgjöfum knattspyrnuáhugamanna sem voru að mig minnir Flugleiðir, Actavis, Visa Ísland og ég kann ekki að telja fleiri upp hér í stólnum. Ég skil ekki í öðru en að gestgjafarnir hafi þegar talað við Skjá einn, Símann og væntanlega Sjálfstæðisflokkinn líka um að rétta hlut sinn. Það er þeim auðvitað til mikillar háðungar og armæðu að Skjár einn, Síminn og Sjálfstæðisflokkurinn skuli bera það upp á þessi góðu fyrirtæki að þau séu svo blönk og nísk og smásmuguleg að þau tími ekki að borga fyrir einn íþróttafréttamann á vakt á hverjum degi.

Þetta er ömurlegur kafli í sögu Sjálfstæðisflokksins og ég vona að flokkurinn beri gæfu til þess að snúa af þessari braut og ganga aftur í bandalag annarra stjórnmálaflokka hér á Íslandi um að halda við íslenskri tungu á þeim nýju tímum sem nú eru að renna upp og með fullu tilliti til þeirrar jákvæðu aukningar á samskiptum í heimsþorpinu sem nú er að verða.

Ég ætla ekki að samþykkja þessa tillögu hv. þm. Bjarna Benediktssonar og skora á hann að draga hana til baka, ræða e.t.v. við fleiri ráðherra og skoða betur hug sinn en standa ekki hér uppi sem sérstakur árásarmaður á íslenska tungu, þótt í litlu sé, án þess að hafa á bak við sig neinar þær reglur eða neinn þann málstað sem geti varið þessa einkennilegu málsmeðferð í 3. umr. um ágætt mál.