131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað.

191. mál
[11:52]

Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Þetta er ágætisumræða um málið og endurspeglar ýmis sjónarmið sem tekist var á um í nefndinni áður en nefndarálitið var gefið út og komu fram á fundum nefndarinnar með fulltrúa utanríkisráðuneytisins eftir að nefndarálitið var gefið út.

Ég ætla aðeins til upprifjunar að rekja feril þessa máls til þess að draga upp skýrari mynd af því sem við erum að fjalla um. Mér finnst að menn hafi aðeins farið út af sporinu í þeirri umræðu sem átt hefur sér stað hér í dag.

Í frumvarpinu sem var lagt fram fyrir áramót er í greinargerð með 4. gr., sem hér kemur mjög til umfjöllunar, farið yfir það viðkvæma atriði sem tekist er á um í umræðunni í þingsal í dag. Ég leyfi mér, með leyfi forseta, að lesa aðeins upp úr greinargerðinni:

„Í 2. mgr. er að finna heimild til að birta milliríkjasamninga á erlendu máli þegar frumtexti samnings er ekki á íslensku. Hér er um að ræða frávik frá þeirri óskráðu meginreglu að allur texti Stjórnartíðinda sé á íslensku. Heimildin er bundin því afdráttarlausa skilyrði að viðkomandi samningur varði afmarkaðan hóp manna sem með sanngirni má ætlast til að skilji hið erlenda mál vegna menntunar sinnar eða annarrar sérhæfingar. Heimildin á við um umfangsmikla samninga (eða viðauka við samninga) þegar sá hópur manna sem þeir varða hefur augljóslega nægilega kunnáttu til að kynna sér efni þeirra án sérstakrar þýðingar á íslensku.“

Ég endurtek þetta, með leyfi forseta:

„... sá hópur manna sem þeir varða hefur augljóslega nægilega kunnáttu til að kynna sér efni þeirra án sérstakrar þýðingar á íslensku.“

Síðan segir í framhaldinu, með leyfi forseta:

„Hafa ber í huga að heimilt er að vísa til birtingar skv. 4. gr. frumvarpsins þegar milliríkjasamningar eru lögleiddir með settum lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum. Þarf því að beita umræddri heimild með varfærni, sérstaklega ef um er að ræða refsireglur eða aðrar íþyngjandi reglur. Í vafatilvikum væri hægt að láta íslenska þýðingu milliríkjasamnings fylgja með settum lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum sem lögfestu ákvæði slíks samnings við birtingu þeirra í A- eða B-deild, ef slíkri þýðingu samningsins hefur verið sleppt við birtingu hans í C-deild Stjórnartíðinda.“

Það hefur því verið ljóst alveg frá upphafi að menn voru meðvitaðir um að það bæri að stíga varlega til jarðar vaðandi þessa heimild, sérstaklega út af þeirri tilvísunarreglu sem er innbyggð í frumvarpið.

Það gerðist síðan þegar allsherjarnefndin fór yfir málið, m.a. með frumvarpshöfundum og þeim ráðuneytum sem málið snertir, að nefndinni þótti skorta nokkuð á að það lægi skýrt fyrir fyrir hvað væri nákvæmlega verið að opna. Menn vildu geta fest fingur á hvaða gerðir þetta væru, hvers konar samningar þetta væru sem menn óska eftir heimild til að nota tilvísunarleiðina til þess að koma inn í A-deildina.

Þar sem nefndinni þótti ekki hafa komið fram nægilega skýr svör í þessu efni var sú leið farin sem ég studdi svo sannarlega og birtist í nefndaráliti allsherjarnefndar um að taka af allan vafa í þessu efni. Var því bætt við 2. mgr. 2. gr. og 2. mgr. 3. gr. ákvæði þess efnis að tilvísunarleiðin væri einungis heimil þegar þær reglur sem birtar hefðu verið á grundvelli 4. gr. laganna hefðu verið þýddar á íslensku. Með öðrum orðum féllst nefndin ekki á eða hún vildi ekki einungis fara varlega heldur vildi hún, þar sem ekki lá fyrir um hvað var hér að ræða, nánast skrúfa bara fyrir þennan möguleika.

Við þessu bárust athugasemdir. Þá var kallað eftir frekari skýringum. Það er á grundvelli þeirra skýringa sem nefndinni bárust í framhaldi af þessu sem ég tefli fram þeirri breytingartillögu sem ég hef hér mælt fyrir og ég hreinlega frábið mér alla umræðu um að hér sé íslenskri tungu stefnt í hættu. Mér finnst sú umræða alveg með ólíkindum, algjörlega með ólíkindum vegna þess að hér er um slíkar undanþágur að ræða frá þeirri meginreglu sem allir eru sammála um, að íslensk lög og reglur séu birtar þegnunum á íslensku, að mér finnst tilefnið til að blanda slíkri umræðu inn í þetta þingmál vera afskaplega léttvægt.

Það sem mestu máli skiptir hér er það að hafi menn ætlað eða séu reiðubúnir til þess að gera eitthvert frávik frá þeirri reglu að í A-deild og B-deild sé ekki vísað til birtingar nema gerðirnar hafi verið þýddar á íslensku þá er varla hægt að stíga varlegra skref en að láta matið í þessu efni í hendur Alþingis. Hvernig er hægt að stíga með nokkrum hætti varlegar til jarðar en að gera það einmitt þannig? (Gripið fram í.) Varðandi B-deildina þá er matið í þessu efni í höndum ráðherrans og ég vek athygli á því að það er í höndum annars ráðherra en þess sem fer með birtinguna í C-deildinni. Með því er tryggt það eftirlit sem er nauðsynlegt í þessu efni.

Ég vil ítreka að ég held að menn séu hér að gera úlfalda úr mýflugu. Ég tel að ég mæli hér fyrir afar varfærinni undanþágu. Löggjafanum og dómsmálaráðherra á að vera treystandi til þess að meta hvort tilvísunarleiðin sé tæk í þeim fáu tilvikum sem sú leið hefur verið farin að birta gerðir einungis á frumtextanum í C-deildinni. Þetta verða eins og við þekkjum fá tilvik og varða til að mynda, eins og allsherjarnefnd hefur verið upplýst um, flugöryggisreglur, handbækur sem mælast í metravís, handbækur sem notaðar eru á vettvangi Flugmálastjórnar og flugrekenda. Að menn skuli vera að blanda því hér inn í umræðu um slík mál að í voða sé stefnt jafnrétti almennings til aðgangs að upplýsingum um þau lög og reglur sem hér á landi gilda er auðvitað alveg með ólíkindum vegna þess að þetta er sjálfsagt hagræði sem við eigum að samþykkja og menn hafa gert annars staðar jafnframt.