131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[12:30]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég var í rúman klukkutíma í fyrri umræðu málsins að reyna að skýra út fyrir hv. þingmanni hvernig þetta stæði allt saman og hann virðist eitthvað hafa verið sljór við þá umræðu því hann er nú að spyrja spurninga sem þegar hefur verið svarað. Ég ætla að gera honum það til geðs og þingheimi öllum náttúrlega að halda ræðu á eftir þar sem ég svara í annað sinn eða þriðja þeim spurningum sem hv. þingmaður ber hér fram.

Núna langar mig til að spyrja hv. þingmann sjálfan tveggja spurninga í tilefni af orðum hans: Í fyrsta lagi: Þekkir þingmaðurinn dæmi um háskóla í hlutafélagsformi? Í öðru lagi, vegna þess að hann talar um að það sé gott að háskólar keppi: Hvernig verður háttað eftir samþykkt þessara laga samkeppni í tæknifræði og skyldum greinum milli íslenskra háskóla?