131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[12:31]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Mörður Árnason víkur sér undan því að svara þeim spurningum sem ég hef varpað til hans og mér finnst það skiljanlegt. En hann spyr mig tveggja spurninga: Annars vegar hvort ég geti nefnt einhverja háskóla sem starfa á hlutafélagsformi. Því er til að svara, herra forseti, að ég get ekki nefnt neina háskóla a.m.k. á Íslandi sem starfa á því formi. Hins vegar nefndi ég í ræðu minni að til eru menntastofnanir sem eru starfræktar í formi hlutafélags og ég taldi þær upp, en ég efa ekki að í löndunum í kringum okkur séu starfræktir háskólar á hlutafélagsformi. Ég hef ekki rannsakað það sérstaklega, ég vil taka það fram, en ég efa ekki að í Bretlandi og Bandaríkjunum séu starfræktir háskólar á einhverju slíku formi.

Ég tel að þessi umræða, og ég sagði það strax í upphafi ræðu minnar, sé í rauninni deila um keisarans skegg. Ég tel að það skipti ekki öllu máli á hvaða formi skólinn er rekinn, en okkur ber hins vegar að virða það að það eru stjórnendur þessara skóla sem eiga að fá að taka ákvörðun um á hvaða formi þeir reka sinn háskóla.

Varðandi samkeppni í tæknifræði styð ég að það verði samkeppni þar og vonast til að Háskóli Íslands taki upp kennslu í þeirri námsgrein í samkeppni við Háskólann í Reykjavík eða hinn nýja sameinaða skóla. Ég geri mér vonir um að það geti gerst og geri ráð fyrir að slík viðbót við það nám sem nú er þegar starfrækt í verkfræðideild Háskóla Íslands sé ekki mjög mikil.