131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[12:33]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég biðst forláts á því að hafa kinokað mér við að svara á tveimur mínútum eða tvisvar sinnum tveimur mínútum öllum þeim miklu spurningum sem hv. þingmaður hefur beint til mín. Ég sagðist ætla að gera það á eftir. Ég vona að hann taki mark á mér með það en ég var búinn að því. Ef hv. þingmaður hefði verið vakandi í fyrri ræðu minni eða viðstaddur a.m.k. hefði hann heyrt að ég færði þar margvísleg rök í nokkuð langri ræðu, sennilega aðeins of langri fyrir hv. þingmann og þingheim og jafnvel of langri fyrir sjálfan mig.

Um fyrra svar hv. þingmanns við spurningu minni í andsvörum er það að segja að hann þekkir ekki neinn háskóla sem rekinn er með hlutafélagsformi. Ég skal ekki fortaka það frekar en hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson að einhverjir háskólar séu það í Bretlandi og Bandaríkjunum. Ég hygg að það sé ekki í nágrannalöndum okkar á Norðurlandasvæðinu eða í Norður-Evrópu yfir höfuð. Háskólar eru auðvitað með margvíslegum hætti í ríkjum. Ég hef t.d. tekið eftir því að stundum fær maður tilboð í netpóst sinn um að kaupa sér ýmsar gráður í háskólum, einkum í Bandaríkjunum, og ég efast ekki um að þeir háskólar séu reknir með hlutafélagsformi, ef það er það sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson meinar.

Um síðari spurninguna vekur það mikla athygli að Sigurður Kári skuli svara með þeim hætti því hann hefur þá væntanlega tryggt það hjá menntamálaráðherra eða einhvers staðar í djúpum valdsins að þetta verði gert. Það kemur hvergi fram að þetta eigi að gera. Við höfum þráspurt um þetta. Við höfum ekki fengið neinar áætlanir, plön, yfirlýsingar eða fyrirheit um að tæknifræðinámið verði stundað í öðrum skóla en þessum hlutafélagsskóla með skólagjöldum. Þetta er eitt af grundvallaratriðum málsins eins og verður komið inn á væntanlega á eftir. Það vekur hins vegar athygli að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson virðist, eins og hv. þm. Dagný Jónsdóttir, með einhverjum hætti hafa skilyrt stuðning sinn við málið því að þessar tæknigreinar yrðu teknar upp í öðrum skólum, Háskóla Íslands m.a., en þá spyrjum við: Hvar eru efndirnar á því, hvar eru fyrirheitin, hvar eru loforðin um það?