131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[12:41]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt að við upphaf 2. umr. var óskað eftir að hæstv. ráðherra yrði viðstödd umræðuna og eins og ég sagði áðan er það auðvitað fagnaðarefni að stjórn þingsins og hæstv. forseti hafa séð til þess að umræðan heldur áfram hér með hæstv. ráðherra. Það var eðlilegt að óskað væri eftir því. Það var orðið við því og það er rétt að fagna því.

Þar sem hv. þingmaður heldur því fram þegar ég í örstuttu andsvari náði ekki að mótmæla ýmsu sem hann sagði í ræðu sinni að þar með sé ég að staðfesta það sem hann hafi sagt, þá stenst það auðvitað ekki og ég mun fara nánar yfir það í ræðu minni á eftir. Það er hins vegar reginmisskilningur hjá hv. þingmanni að við höfum lagst gegn sameiningu þessara skóla í málflutningi okkar. Því fer víðs fjarri. Við höfum talið það koma vissulega mjög vel til greina og það verði væntanlega til að efla tæknifræðinámið og við höfum fagnað því.

Hins vegar höfum við fært mikil og sterk rök fyrir því að það sé óheillaspor að fara að taka upp hlutafélagaform á rekstri háskóla. Það er þar sem við erum með varnagla og ég mun að sjálfsögðu fara betur yfir það í ræðu minni á eftir og ég trúi því að fleiri þingmenn okkar í Samfylkingunni muni gera það. Ég vona að hv. þingmaður hlýði vel á þær ræður og komi í andsvör við einstaka þætti ef hann telur ástæðu til. En hv. þingmaður talaði um hreinskilni og ég vil þakka honum fyrir að hann var býsna hreinskilinn í ræðu sinni. Það komu fram mjög mörg rök fyrir því af hverju hv. þingmaður telur eðlilegt að hlutafélagaformið sé notað á háskólastigi og það er auðvitað upplýsandi að það séu ástæðurnar fyrir því að menn fari í þetta form að menn geri engan greinarmun á því að reka háskóla og fyrirtæki af hvers konar gerð í samfélaginu.