131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Samþætting jafnréttissjónarmiða í íslensku friðargæslunni.

[13:19]

Sólveig Pétursdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég fagna því sérstaklega eins og hv. þm. Dagný Jónsdóttir að Vinstri hreyfingin – grænt framboð skuli hafa áhuga á innviðum og skipulagi íslensku friðargæslunnar og beri framþróun hennar fyrir brjósti. Hingað til hafa þau staðið fyrir frekar neikvæðri umræðu um friðargæsluna og gjarnan hamrað á því að íslenska friðargæslan væri ekkert annað en íslenskir hermenn í útlöndum, gráir fyrir járnum. Nú láta þau allt í einu jafnréttissjónarmið innan friðargæslunnar sig varða. Já, batnandi mönnum er best að lifa.

Hæstv. utanríkisráðherra hefur skýrt vel starfsemi íslensku friðargæslunnar sem hefur tekist afar vel. Ég tek hins vegar undir með hv. málshefjanda, nauðsynlegt er að gæta að jafnréttissjónarmiðum við stefnumótun, ráðningu starfsmanna, val á verkefnum o.s.frv. Þá vil ég þakka UNIFEM á Íslandi sérstaklega fyrir mjög gott starf og tel sjálfsagt að farið verði nánar ofan í þessi mál og skoðað hvernig við getum gert betur. Sú skýrsla sem hér er rædd er gott innlegg í því sambandi en höfundur hennar fékk einmitt sérstakan styrk frá utanríkisráðuneytinu.

Minna má einnig á athyglisverða skýrslu frá UNIFEM, Konur í stríði og friði, sem kom út árið 2002 en þar var einmitt vakin athygli á þessu mikilvæga hlutverki kvenna.

Utanríkismálanefnd hefur farið vel yfir málefni íslensku friðargæslunnar og mun að sjálfsögðu halda áfram að fylgjast með starfseminni. Í dag eru konur um þriðjungur viðbragðslistans hjá íslensku friðargæslunni og mér skilst að unnið sé að því að auka hlut kvenna á listanum.

Það er alveg ljóst að jafnréttis- og kynjasjónarmið umvefja alla starfsemi íslenska ríkisins í dag og ég er sannfærð um að fjöldi kvenna hefur áhuga á störfum íslensku friðargæslunnar og gæti lagt þar þung lóð á vogarskálarnar, ekkert síður en karlar.