131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Samþætting jafnréttissjónarmiða í íslensku friðargæslunni.

[13:21]

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Á kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Beijing árið 1995 var samþykkt framkvæmdaáætlun með sérstökum kafla um konur og vopnuð átök. Kveðið er á um verndun kvenna í vopnuðum átökum og aukna þátttöku kvenna í ákvarðanatöku.

Þegar Dayton-samkomulagið vegna Bosníu-Hersegóvínu var gert kom á óvart að ekkert gaf til kynna að Beijing-áætlunin væri til. Samt var Dayton-samkomulagið hið fyrsta sinnar tegundar eftir Beijing-ráðstefnuna. Konur komust síðan á dagskrá öryggisráðsins á alþjóðadegi kvenna 8. mars árið 2000 þegar formaður öryggisráðsins gaf sérstaka yfirlýsingu um að nú viðurkenndu fulltrúar öryggisráðsins að friður væri órjúfanlega tengdur jafnrétti kvenna og karla.

Svokallaður Brahimi-hópur sem samanstóð af sjö körlum og tveim konum skilaði skýrslu, líka árið 2000, sem var niðurstaða heildstæðrar endurskoðunar friðargæslu Sameinuðu þjóðanna. Þar láðist að taka tillit til kynjasjónarmiða. Á þessum árum og í þessu umhverfi var verið að móta hugmyndir um þátttöku Íslands í borgaralegri friðargæslu svo að það er varla að undra að kynjasjónarmið verði líka út undan hér heima. Öryggismál og ófriðarumfjöllun er karlaheimur með karlatalsmáta þar sem nálgun viðfangsefnisins er út frá reynsluheimi hans enda er það vel undir 10% að konur taki almennt þátt í fundum og ráðstefnum í heiminum um öryggismál. Það er fyrst þegar öryggishugtakið víkkar og fer að ná til mannréttinda, umhverfismála og efnahagsþátta sem þátttaka kvenna kemur til.

Ríkisstjórnin hefur sett sér markmið. Við höfum ekki séð hvernig þau skila sér inn í friðargæsluna enn þá. Nú reynir á hvernig nýr utanríkisráðherra velur að höndla þessi mál og hvert eðli verkefna verður sem hann velur í framtíðinni.