131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Samþætting jafnréttissjónarmiða í íslensku friðargæslunni.

[13:25]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Herra forseti. Ég tel, og ég ítreka það, að sú skýrsla sem var tilefni umræðunnar og umræðan sjálf sé mjög jákvæður þáttur í starfsemi þingsins. Ég ítreka jafnframt að ég tel að við í utanríkisráðuneytinu eigum að horfa til þess að gæta eins og kostur er jafnréttissjónarmiða við ákvarðanir okkar sem snúa að íslensku friðargæslunni. Ég ítreka þetta og ég tel að það sé rétt ábending til okkar og að til hennar sé fullt tilefni.

Ég tel enn fremur og tek undir með hv. þm. Sólveigu Pétursdóttur og Dagnýju Jónsdóttur að umræðan hafi verið góð að því leyti til að hér er talað um íslensku friðargæsluna með þeim brag eins og að hér sé um — sem það svo sannarlega er — að ræða góða, eðlilega og æskilega starfsemi á vegum íslenska ríkisins. Ég er þeirrar skoðunar.

Hitt er svo aftur umhugsunarefni fyrir okkur öll að hér er verið að tala um að við eigum að skipta liði nokkurn veginn eftir hlutverkunum. Ef það væri nú þannig að utanríkisráðherrann væri í þessu tilfelli kona — sem hann er nú ekki en verður kannski einn góðan veðurdag, og kannski vonandi fyrr en síðar, þ.e. ekki ráðherrann heldur embættið — hefðu eingöngu konur talað hér í dag. Og það er kannski svolítið umhugsunarefni fyrir okkur að liðsskiptingin í umræðunni sé ekki jafnari en svo. Eigum við ekki að taka okkur á í þessum efnum?