131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[14:17]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst dálítið merkilegt að heyra þá yfirlýsingu frá hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni að hér á landi megi ekki vera neinn rekstur á háskólastigi nema á formi sjálfseignarstofnunar. Mér finnst alveg magnað að menn megi ekki hafa frelsi til að ráða því rekstrarumhverfi sem þeir sjálfir kjósa að starfa í. Mér finnst líka magnað að hv. þingmaður boði það að þegar og ef Samfylkingin kemst í stól menntamálaráðherra verði það hennar fyrsta verk að ganga á milli bols og höfuðs þeirra aðila sem ætla að reka þennan nýja háskóla. Löggjafarvaldinu verður beitt gegn þessum mönnum. Hv. þingmaður hótaði því.

Við erum að tala um rekstur og hv. þingmaður sagði að kosturinn við sjálfseignarstofnunarformið umfram hlutafélagaformið væri sá að hlutafélagaforminu væri ætlað að skila arði til eigenda en ekki sjálfseignarstofnunum. Þar er einhver verulegur misskilningur í gangi. Heldur hv. þingmaður að lög frá árinu 1999 um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur séu sett utan um atvinnurekstur sem er ætlaður að rekast á núllinu eða skila tapi? Hefur hv. þingmaður aldrei heyrt talað um sparisjóðina? Ætlar hann að halda því fram að sparisjóðirnir sem eru sjálfseignarstofnanir skili ekki neinum hagnaði til eigenda sinna?

Gallinn við sjálfseignarstofnunarformið er sá að hugarfarið á bak við það er nánast það að þegar einhver hefur stofnað sjálfseignarstofnun og lagt fram peninga í stofnfé er afskipta viðkomandi af rekstri stofnunarinnar ekki óskað frekar. Sá er gallinn við þetta rekstrarform umfram hlutafélagaformið.