131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[14:22]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hann er merkur, sá ræðustíll að endurtaka það sem búið er að leiðrétta og að því skuli fram haldið þótt búið sé að benda að rangt hafi verið farið með. Ég ætla samt ekki að elta ólar við það. Enn einu sinni kemur þó hv. þingmaður hér og fullyrðir að Samfylkingin sé á móti sameiningunni. Ég veit ekki hvar hann finnur slíku stað. Það liggur hvergi nokkurs staðar fyrir. Það er hins vegar rétt hjá hv. þingmanni að athugasemdir eru gerðar bæði við rekstrarform og vinnulag, að ekki hafi verið farið algjörlega yfir þetta svið. (Gripið fram í.) Það er líka rétt hjá hv. þingmanni að víða eru athugasemdir við þetta og bent á að betur hefði verið hægt að standa að málum. Hins vegar er líka sagt að það sé mikilvægt að þessi skóli verði öflugur og sterkur og ég hef margoft farið yfir það í ræðum mínum að það sé mjög jákvætt að atvinnulífið komi að þessum skóla og það sé mjög mikilvægt að hann verði efldur og að hann verði sterkur. Við leyfum okkur samt að hafa skoðanir á því hvernig staðið er að málinu. Þar á milli er ekkert samasemmerki, hvort menn séu á móti sameiningunni eða ekki. Það er alrangt að við séum á móti sameiningunni.