131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[14:30]

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ja, þvílík málefnafátækt í þessu máli hjá Samfylkingunni, ég er nú eiginlega farin að finna til með henni.

Ef það eru nú orðin meginrök í málinu að slæmt sé að hafa einhverja framtíðarsýn í menntamálum og að stjórnvöld hafi metnað til þess að efla framboð á tæknigreinum og það verði aukið á komandi árum, þá er nú illa komið fyrir okkur. Stjórnvöld hafa hingað til verið mjög opin fyrir því að taka upp og auka framboð á námsleiðum og það ætti að vera hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni vel ljóst.

Rökstuðningurinn er tíundaður í ræðu minni og ætti hv. þingmaður kannski að fara yfir þann rökstuðning og vil ég ekki orðlengja það neitt meira en hann ætti kannski að fara varlega í það að segja að sumir dragi miklar ályktanir af orðum annarra vegna þess að það er nákvæmlega það sem kom fram í máli hv. þingmanns áðan.

Mig langar aðeins að koma inn á rekstrarformið sem hv. þingmanni varð tíðrætt um áðan. Hann talar um að það hafi verið óskiljanlegt hjá stofnendum hins nýja skóla að skapa ekki sátt varðandi skólann heldur ætli menn í þetta einkahlutafélagaform og skapa þannig einhverja óeirð í kringum hinn nýja skóla.

Það kom fram í máli gesta sem komu á fund hv. menntamálanefndar varðandi þetta að þeir hefðu ekki verið mjög uppteknir af þessu atriði og það sem þeir hefðu mest hugsað um og það sem okkur finnst vera rök í málinu eru nákvæmlega sterk tengsl við bakhjarlana sem eru gríðarlega mikilvæg. Félagið er ekki rekið í hagnaðarskyni sbr. 2. og 11. gr. stofnsamþykktar og eftirlitið er tryggt og verður tryggt í kennslusamningi við menntamálaráðuneytið. Og að halda því fram að hægt verði að breyta þessum samþykktum hist og her án þess að það verði fylgst með því er bara ekki rétt.