131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[15:15]

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil fara örlítið yfir ræðu hv. þm. Önnu Kristínar Gunnarsdóttur sem hún flutti hér áðan um Tækniháskólann. Þar kom ýmislegt fram, m.a. það að hún taldi að hlutfall tæknifræðinga og verkfræðimenntaðra manna væri ekki sem skyldi hér á landi. Hún hafði um það upplýsingar en það vill svo til að þessar sömu upplýsingar komu fram hjá öðrum fulltrúa Samfylkingarinnar í menntamálanefnd þar sem ég á sæti og ég var einmitt með fyrirspurn hvað þetta mál varðar til þeirra sem reka Háskólann í Reykjavík. Við fengum skriflegt svar. Með leyfi forseta ætla ég að lesa upp úr því skriflega svari:

„Aðalatriðið er að í landinu eru bæði allt of fáir verkfræðingar og of fáir tæknifræðingar, mun færri en á hinum Norðurlöndunum. Hér er um innan við 10% háskólastúdenta útskrifaðir ár hvert úr tækni- og verkfræðigreinum en hlutfallið er tvöfalt það víða á Norðurlöndum og nær þrefalt í Finnlandi.“ — Ég vil beina því til okkar, þingsins, að við ræðum þetta á þeim grunni að hér þurfum við að efla bæði verkfræði- og tæknifræðinám en ekki að það sé rangt hlutfall milli verkfræðinga og tæknifræðinga. Við þurfum að auka þessa menntun í heild sinni af því að við stöndum öðrum Norðurlandabúum að baki. Það er enginn sem segir að það hlutfall sem er á Norðurlöndunum sé rétt. Það kom jafnvel fram í máli þeirra sem komu til nefndarinnar að það væri bara betra að það væru fleiri verkfræðingar, það væri hærra menntunarstig þannig að það eitt er ekkert slæmt.