131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[15:53]

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi fyrra atriðið, að ég sé að kveinka mér undan einhverju, þá vil ég benda á að hefði þetta mál verið til umræðu, sjálfeignarstofnunarformið og einkahlutafélagsformið, og allt verið undir, allt verið rætt í heild og heildrænt sem algjörlega vantar en ekki sent út í fréttatilkynningarstíl, þá værum við auðvitað að ræða þetta á allt öðrum forsendum og við værum ekki að ræða þetta í fyrsta skipti. Við erum í rauninni að ræða þessar stóru grundvallarspurningar í menntamálum almennilega í fyrsta skipti í þessum sal.

Ég ætla að benda hv. þingmanni á að við erum með mjög skýra stefnu í þessu máli. Við höfum lagt fram breytingartillögu. Við höfum líka beðið um svör við fjölmörgum spurningum sem hafa ekki komið og við erum með breytingartillögu sem þýðir að við erum hér í umræðu um málið, ekki satt? Við höfum lagt fram breytingartillögu. Það er því ekki hægt að segja þegar við leggjum fram breytingartillögu við frumvarpið að við séum á móti því í heild sinni. Við viljum hins vegar sjá breytingar á því og til þess erum við hér.

Varðandi tilvitnanir í viðtöl og vinnuplögg á vegum Samfylkingarinnar þá get ég sagt að þetta er auðvitað allt til umræðu innan flokksins. Við erum með málefnastarf í gangi. Þetta er allt til umræðu. Það er ágætt að þú vísir hér til vinnuplagga okkar, vegna þess að þetta er auðvitað allt til umræðu. Það sem við erum að ræða hér er að við erum ekki að tala um hvort það eigi að vera skólagjöld í sjálfseignarstofnunum sem nú þegar taka skólagjöld, við erum að ræða skólagjöldin á þeirri forsendu að grunnnám, tækninám sem hingað til hefur verið í boði í opinberum skóla verður það ekki lengur. Það verður einungis í boði í einkareknum skóla og því ekki í nokkurri samkeppni við aðra skóla og þar liggur munurinn.

(Forseti (ÞBack): Forseti vill áminna hv. þingmann um að ávarpa forseta en ekki þingmenn úti í sal.)