131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[15:57]

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Í upphafi ræðu hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur kom fram að það væri hraði málsins sem skipti öllu máli, málsmeðferðin væri svo hröð að ekki væri hægt að afgreiða málið frá þinginu. Síðar þegar leið á umræðuna voru það önnur atriði sem skiptu meginmáli, eins og eignarhaldið og fleiri þættir. Það breyttist því í ræðunni eftir því sem á leið.

Förum nú aðeins í þennan hraða. Í raun rakti hv. þingmaður það ágætlega að yfirlýsingin kom í ágúst, frumvarpið var kynnt í þinginu í desember. Í janúar og febrúar hefur það verið til umfjöllunar í hv. menntamálanefnd þar sem málið hafði verið sent til umsagnar fyrir áramót. Fengnar voru umsagnir og gestir komu fyrir nefndina og það var farið vel yfir málið.

Lítum nú aðeins til atvinnulífsins, hvað er að gerast í atvinnulífinu og reyndar í skólum landsins þar sem er mikil gróska. Sama gildir um atvinnulífið, þar er mikil gróska. Það er verið að sameina félög og fyrirtæki í rekstri. Það gerist á stuttum tíma. Það heitir bara samræðupólitík að taka tvö, þrjú ár í það að ákveða hvort stíga eigi eitt skref áfram eða til hliðar. Slík samræðupólitík í rekstri ríkisstofnana og rekstri fyrirtækja á markaði gengur ekki upp. Það er bara svo einfalt mál. Það gengur bara ekki upp. Ef við ætlum að láta skólastarfið fylgja atvinnulífinu verðum við að bregðast fljótt og skjótt við líkt og atvinnulífið og líkt og aðstæðurnar í þjóðfélaginu eru.