131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[15:59]

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér heyrist hv. þingmaður vera að leggja til að við afhendum ráðherrunum löggjafarvaldið og hæstv. ráðherrar ráði því hvað hér fer fram en málin séu ekki rædd með eðlilegum hætti á Alþingi, ég a.m.k. skildi ræðu hans ekki öðruvísi en svo. Þar er ég honum auðvitað hjartanlega ósammála.

Hv. þingmaður vitnaði til ræðu minnar. Það sem ég sagði í upphafi hennar var að aðdragandinn allur væri mjög sérkennilegur. Upplýsingar voru engar eða litlar, þetta barst sem fréttatilkynning úr menntamálaráðuneytinu. Það var lítil sem engin umræða um þetta í þinginu þannig að aðdragandinn var allur afar sérkennilegur. Og eins og ég nefndi líka fengu fulltrúar í háskólaráði Tækniháskólans ekki vitneskju um þetta fyrr en skömmu áður en yfirlýsingin var send út. Það var því fjölmargt að og að mínu mati var valdbeitingin allt, allt of mikil í málinu og eiginlega algjör hingað til.

En núna erum við að ræða þetta í 2. umr. og tel ég allt eðlilegt við það og umræðuna að mörgu leyti góða. Það er einmitt hér og loksins, eins og ég sagði líka í ræðu minni, að við hittumst og ræðum þessi stóru menntapólitísku grundvallaratriði og var kominn tími til.