131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[16:03]

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir sagði áðan að hagsmunir eigenda muni stjórna skólanum. Ég spyr og mig langar að velta því aðeins upp hérna: Hagsmunir hverra eru það að útskrifa vel hæfa tæknifræðinga og verkfræðinga? Jú, það eru nákvæmlega hagsmunir t.d. Samtaka atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins.

Það var fróðlegt að sitja sprotaþing sem haldið var í síðustu viku en ég tók þar þátt í nefndarstarfi um tengsl atvinnulífs og skóla og þar kom þetta einmitt skýrt fram, að það væru hagsmunir þeirra að þetta samstarf mundi takast vel. Þess vegna er sorglegt að heyra í málflutningi í dag að stjórnarandstaðan er hér að lýsa yfir algjöru vantrausti á Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins.

Síðan er það varðandi málsmeðferðina, þar ræddi hv. þingmaður um valdbeitingu. Það var þannig að þessi viljayfirlýsing kom fram um stofnun einkahlutafélags sem tæki yfir starfsemi HR og Tækniháskóla Íslands. Í henni stóð að yfirlýsingin væri háð því að Alþingi féllist á þær lagabreytingar sem nauðsynlegar væru til að af sameiningu yrði.

Það eru um 2.500 manns sem bíða eftir því að málið verði klárað. Ef þetta væri svona gríðarleg valdbeiting værum við ekki þá með þingpallana fulla af fólki sem væri óánægt og væri að mótmæla? En það er ekki þannig. Fólk er á þessari sameiningu og bindur miklar vonir við hana.