131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[16:39]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur fyrir nokkuð langa ræðu og margar spurningar.

Það sem mér finnst athyglisvert við málflutning hennar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er það að í nefndaráliti hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur, nefndaráliti 2. minni hluta, er lagt til að frumvarpið verði fellt sem þýddi að þessir tveir skólar yrðu ekki sameinaðir þátt fyrir að það hafi komið fram í menntamálanefnd að stjórnendur skólanna, kennarar og nemendur eru hlynntir sameiningunni. Mér finnst magnað, svo ekki sé meira sagt, að Vinstri hreyfinguna – grænt framboð varði ekkert um afstöðu þeirra sem hafa hagsmuni af málinu.

Það verður hins vegar að segjast eins og er að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir er heiðarleg í þeim málflutningi að hún telur að hér eigi bara að vera einn ríkisháskóli. Það kemur fram í nefndarálitinu að þingmaðurinn er ekki sannfærð um að reynt hafi verið til þrautar að sameina Tækniháskólann og verkfræðideild Háskóla Íslands. Auðvitað er þetta sjónarmið, að ríkið eigi bara að reka háskólana, þetta er sjónarmið sem hefði sómt sér ágætlega í Ráðstjórnarríkjunum í gamla dag en á kannski ekki beint við í dag.

Hv. þingmaður vék að framtíðarsýn og mig langar til að spyrja hana spurningar þar að lútandi. Við urðum vitni að því hér í dag að hv. þm. Einar Már Sigurðarson boðaði það að kæmist Samfylkingin til valda í menntamálum á Íslandi mundi hún beita valdboði til að breyta þeim lögum, eða því frumvarpi sem hér er til umræðu verði það að lögum. (Forseti hringir.) Komist Vinstri hreyfingin – grænt framboð einhvern tíma til valda, (Forseti hringir.) mun hún þá beita sömu meðulum gagnvart þessum nýja háskóla (Forseti hringir.) og beita valdboði til þess að breyta því rekstrarfyrirkomulagi sem hann sjálfur vill hafa? (Gripið fram í.)

(Forseti (BÁ): Forseti vill áminna þingmenn um að virða ræðutíma í andsvörum og svörum.)