131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[16:45]

Frsm. 2. minni hluta menntmn. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að vona að ég beri gæfu til þess að þurfa aldrei að ganga á milli bols og höfuðs á nokkrum, hvorki einkaaðilum sem vilja reka háskóla né öðrum.

Ég ítreka eingöngu það sem ég hef áður sagt að ég fagna hverju nýju menntunartækifæri fyrir íslenska æsku, sama frá hverjum það tækifæri kemur. Þess vegna er það rangt sem hv. þingmaður er alltaf að reyna að gefa í skyn að ég sé á móti og ætli að ganga á milli bols og höfuðs á þeim einkaaðilum sem vilji reka skóla. Börnin mín voru í einkareknum leikskóla á sínum tíma. Ég hef ekkert á móti því að einkaaðilar komi að menntamálum en ég vil ekki að það sé á forsendum einkaaðilanna, (Gripið fram í: Borga bara …) ég vil að það sé á forsendum hinnar sameiginlegu menntastefnu sem þjóðin hefur ákveðið að koma sér saman um. Ég vil að við sameinum krafta okkar en sundrum ekki. Ég vil að þjóðskólinn okkar sé öflugur, það er rétt sem hv. þingmaður segir, en ég hef aldrei sagt að ég krefjist þess að það sé bara rekinn einn öflugur ríkisháskóli.

Mér finnst skynsamlegt að ræða málin út frá því að ef verkfræðideild Háskóla Íslands telur að hún hafi ekki nægilega fjármuni til að reka framhaldsnám svo sómi sé að, af hverju eigum við þá að vera stofna nýja framhaldsdeild og láta aðra aðila um að reka framhaldsnám sem er ekki einu sinni nægilegt framboð af nemendum í hjá Háskóla Íslands? Ég er búin að koma með fullkomlega málefnaleg rök máli mínu til stuðnings. Hv. þingmaður getur sparað sér upphrópanirnar í þessum efnum, ég er tilbúin til að ræða þetta við hann málefnalega (Gripið fram í: Ég sagði að þetta væri heiðarleg nálgun …) á nóttu sem degi. Já, það er heiðarleg nálgun, það er rétt og ég þakka hv. þingmanni fyrir það. En málefnaleg afstaða okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði er þessi: Við teljum mikilvægt að sameina krafta okkar og sjá til þess að það nám sem er í boði sé boðlegt og ekki bara boðlegt, sé öflugt, sé í framvarðasveit því að Háskóli Íslands er fyrst og fremst að keppa við háskóla á erlendri grund.