131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[16:48]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Hér er til 2. umr. frumvarp til laga um afnám laga um Tækniháskóla Íslands, með síðari breytingum.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir hefur m.a. gert ítarlega grein fyrir afstöðu okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði til málsins og einnig er það gert í nefndaráliti minni hlutans sem hún stendur að. Auk þess var í 1. umr. um málið farið yfir hina almennu þætti menntamála sem lúta að því sem verið er að gera og er sértækt fyrir þessa beinu aðgerð.

Ég held að við tökumst hér að vissu leyti á um grundvallarsýn á því hvað sé menntun og hvaða sess menntun skipi í samfélaginu. Af hálfu okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði er litið á menntun sem almannaþjónustu, sem grunnmannréttindi sem allir eigi að hafa jafnan aðgang að. Þetta er ekki kaup- eða söluvara að okkar mati. Hins vegar flytja fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og furðanlega Framsóknarflokksins málið á þeim grunni að menntun sé verslunarvara, hægt sé að reka hana á þeim grunni, hægt sé að stofna um hana hlutafélag og reka hana á grunni hlutafélagalaga þar sem eignarhlutar í viðkomandi menntastofnun geti gengið kaupum og sölum.

Þetta er ekki stefna okkar. Við lítum á þetta sem grunnalmannaþjónustu, grundvallarmannréttindi til allra og eigi þess vegna ekki að vera verslunarvara með þeim hætti sem hér er lagt upp með.

Umræðan endurspeglar líka stefnu ríkisstjórnarinnar á undanförnum árum, þ.e. að svelta menntastofnanir í einhvern ákveðinn farveg sem hún vill sjá. Nærtækasta dæmið er einmitt Tækniháskóli Íslands og hefur verið rakið ítarlega hvernig stjórnvöld hafa með markvissum hætti svelt Tækniháskóla Íslands út á markað. Ef frumvarpið um Tækniháskóla Íslands er dæmi um eitthvað er það dæmi um ákveðið skipbrot eða ákveðna staðfestingu á viljaleysi stjórnvalda gagnvart almennri menntun í landinu sem Tækniháskólinn hefur m.a. borið ábyrgð á. Þá er hlaupið í að hlutafélagavæða skólana, setja þá undir lög markaðsvogarinnar. Um þetta er grundvallarágreiningur.

Ég vil spyrja um örfá tæknileg atriði í þessu sambandi. Í fylgiskjölum nefndarálits meiri hluta nefndarinnar er bæði viljayfirlýsing um stofnun einkahlutafélagsins, undirrituð af menntamálaráðherra, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins og Verslunarráði Íslands og fylgiskjalið: Samþykktir fyrir hlutafélagið. Í samþykktunum er kveðið á um ýmis sértæk atriði varðandi umgjörð hlutafélagsins og skólans. Ég vil því spyrja: Er þetta hluti af lagaumgjörðinni fyrir hina nýju stofnun, fyrir hið nýja hlutafélag þannig að ekki sé hægt að breyta samþykktum nema með lagabreytingu? Ef það á bara að breyta samþykktum fyrir hlutafélagið á almennum hluthafafundi er náttúrlega engin ástæða til að leggja þetta fram sem veigamikið fylgiskjal í svo afdrifaríku máli eins og verið er að fara út í, þ.e. að taka algjörlega upp nýtt form sem aldrei hefur verið prófað í rekstri á menntastofnunum.

Er þetta hluti af hinni lagalegu umgjörð og ef ætlunin er að breyta samþykktunum verður það ekki að fara í gegnum Alþingi? Það er skoðun mín því þetta er lagt fram sem eitt veigamesta gagn um skólann og menn vitna í einstakar greinar samþykktanna eins og það sé hluti af lagabálknum. Gott og vel. Það er ágætt og upplýsandi að samþykktirnar fylgi með á þann hátt en þá verða menn líka að gera það á heiðarlegum grunni. Ef menn vitna í það hvernig ráðstafa skuli arði, hvernig fara skuli með það að ekki sé ætlunin að ná fjármagni út úr hlutafélaginu o.s.frv. og menn vitna í textann hlýtur það að vera hluti af lagaumgjörðinni. Ég spyr hv. formann nefndarinnar hvort það sé ekki réttur skilningur hjá mér. Menn hafa skýrt málið með beinum tilvitnunum í einstakar setningar og einstök orð í samþykktunum sem hluta af þeim lagagjörningi sem hér á sér stað. Þá hlýtur samþykktunum ekki að vera breytt nema með lögum, annars væri um óheiðarleika að ræða gagnvart málinu. Þetta vildi ég spyrja um.

Einn stærsti veikleiki við frumvarpið er að hvergi er tekið á innra starfi skólans, það er hvergi tekið á stöðu nemenda innan fyrirtækisins og meira að segja kveðið svo á um að nemendur eigi enga aðkomu að stjórnun skólans því stjórn hlutafélagsins fer með málefni skólans og nemendur eiga engan aðgang að því. Þetta er einsdæmi að ég held við rekstur skóla af þessu tagi þar sem litið er á nemendur nánast eins og verslunarvöru því ef litið er á lögin hafa þeir enga aðkomu að stjórnun eða ákvörðunum um innra starf skólans á nokkurn hátt. Stoðin í hinum almennu lögum um háskóla er veik hvað þetta varðar og er vísað til sérákvæða t.d. um stjórn ríkisháskóla, enda þegar lögin um háskóla voru sett á sínum tíma var í megindráttum horft á ríkisrekna háskóla eða háskóla sem lutu lögum og reglum sem tóku mið af þeim. Ég tel því að það hafi ekki verið gert ráð fyrir því í lögum um háskóla eða tekið mið af því að farið væri að reka háskóla á markaðslegum grunni þannig að það væri fyrst og fremst hugsað um nemendur sem markaðsvöru eins og þessi lög gera ráð fyrir.

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa um þetta mörg orð. Það er dapurt að núverandi ríkisstjórn er að flýja frá grundvallaratriðum, grundvallargildum sem menntun hefur staðið fyrir í samfélaginu yfir í að hún sé orðin markaðsvara, söluvara sem eigi að ganga nánast kaupum og sölum á torgum eins og hlutabréf slíkra fyrirtækja eiga að geta gengið. Það er dapurt, það er eiginlega dómur um menntastefnu og metnaðarleysi ríkisstjórnarinnar í menntamálum og er virkilega harmsefni.

Ég vil að lokum ítreka þær spurningar sem ég hef lagt fram, m.a. um það hvort ekki megi treysta því að samþykktirnar sem gerðar voru fyrir hlutafélagið sem á að takast á við skólann hafi lagalegt gildi, alla vega hafa talsmenn meiri hlutans lesið upp úr þeim sem slíkum.