131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[17:16]

Frsm. 2. minni hluta menntmn. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður fór yfir það í ræðu sinni hvernig Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefði lýst sjónarmiðum sínum í þessum efnum og vildi meina, þó að hann væri ekki að amast við þeim, að við værum haldin ákveðnum fordómum í þessum efnum. Ég tel að svo sé ekki.

Sjónarmið okkar eru þau að eðlilegt sé að samstarf sé milli menntayfirvalda og háskóla og aðila vinnumarkaðarins. Því til staðfestu höfum við t.d. nefndarálit menntamálanefndar þegar Tækniháskóli Íslands var stofnaður með lögum frá Alþingi. Þá vildi menntamálanefnd öll innramma það svo óyggjandi væri að það væri mikilvægt að Tækniháskólanum yrði gert kleift að eiga samstarf við fyrirtæki og rannsóknarstofnanir atvinnulífsins á fjölbreyttum grunni. Nefndin taldi það mikilvægt til þess að efla og styrkja starfsemi skólans og uppbyggingu hans til framtíðar. Reyndar tók nefndin svo djúpt í árinni að hún taldi að hér væri um lykilatriði að ræða í þeim tilgangi að tengja Tækniháskólann við atvinnulífið.

Í mínum huga er ekkert sem kemur í veg fyrir öflug tengsl opinbers háskóla við atvinnulífið. Þannig sýn höfðum við á Tækniháskóla Íslands. Hvers vegna fékk Tækniháskóli Íslands ekki byr í seglin eða loft í vængina? Það var vegna þess að stjórnvöld, ríkisstjórnin sem situr hér við völd, ákváðu að fjársvelta skólann og létu hann ekki hafa það fjármagn sem hann þurfti til þess að fá byr í seglin.

Þess vegna segi ég: Tækniháskóli Íslands var andvana fæddur vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn vildi að svo væri. Fyrir það hef ég gagnrýnt Sjálfstæðisflokkinn og tel að við værum betur sett með lög eins og við búum við nú heldur en afnám þeirra sem við erum að fjalla um hér vegna þess að það er hægt að starfa eftir þeim hugmyndum sem menntamálanefnd studdi á sínum tíma.