131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[17:19]

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að flestir séu sammála um að Viðskiptaháskólinn á Bifröst og Háskólinn í Reykjavík séu merkar stofnanir og ég hef hitt nemendur sem þaðan hafa komið og lokið miklu lofsorði á þá menntun sem þar er veitt. (Gripið fram í.)

Það sem hv. þingmaður var hér að gefa í skyn var að það ætti að taka af þessum háskólum báðum það opinbera fé sem þeir hafa fengið til styrktar. (KolH: Það er rangt.) Það var ekki hægt að skilja hv. þingmann öðruvísi þegar hann kallaði þrisvar sinnum upp eða tvisvar: Fyrir hvað? Fyrir opinbert fé, sagði hv. þingmaður og var þannig að gera það tortryggilegt að sá háskóli sem við erum hér að fjalla um eigi að fá fé í samræmi við það sem aðrir háskólar fá.