131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[17:20]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Hv. 2. þm. Norðaust. beindi máli sínu mjög að hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni og verðandi menntamálaráðherra. Ég held að þeir verði að halda áfram að tefla tveir, þeir hv. þingmenn, og aðrir geti varla komið þar nærri, enda er það tafl tveggja manna.

Ég vil hins vegar vekja athygli á því, þó að lítið sé, að það sem við höfum vakið athygli á í þessari umræðu, bæði hinni fyrstu, fyrri hluta þessarar og núna í dag, er að starfshættir háskóla eru nokkuð sérstakir. Þeir eru öðruvísi en venjulegra fyrirtækja, þeir eru öðruvísi en venjulegra skóla. Þeir starfshættir, og það að háskólar geti verið til og heppnast í fræðslu sinni, rannsóknum og upphleðslu þekkingar, byggjast á tilteknu frelsi sem kallað er akademískt frelsi og hægt er að hafa um nokkur orð, enda gerði ég það hér um daginn í nokkru máli.

Við höfum líka vakið athygli á að ýmsar hættur standa í vegi þess frelsis í hlutafélagsforminu sem leysa mætti með formi sjálfseignarstofnunarinnar. Það form kallar hv. 2. þm. Norðaust. hins vegar staðnað form og vitnar í samvinnuhreyfinguna því til sönnunar. Þess vegna verður maður að spyrja hann: Er það staðnað form sem við búa nú Verslunarskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Viðskiptaháskólinn á Bifröst og Listaháskóli Íslands? Vill hv. 2. þm. Norðaust. hlutafélagavæða þá skóla? Ætlar hann kannski að flytja um það lagafrumvarp að þeir verði hlutafélagavæddir þannig að þeir losni úr þessari hræðilegu stöðnun? Að þessir skólar, það af þeim sem verður eftir þegar allri þessari umræðu lýkur, hætti sinni ömurlegu tilveru og farið verði að reka þá eins og almennileg fyrirtæki?