131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[17:27]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fjórtán ár Sjálfstæðisflokksins a.m.k. í menntamálaráðuneytinu og Tækniskólinn eins og hann var rekinn þann tíma er okkur Íslendingum sannarlega til skammar og aðbúnaðurinn sem þar var. Svo sjáum við að það eru möguleikar á breytingum og hver vill þá ekki standa að því að þar verði breytingar í betri átt, vonandi? Auðvitað eru menn tilbúnir til að skoða málin. Ég held að nær hefði verið að hv. þingmaður hefði farið svolítið yfir söguna, hvernig Sjálfstæðisflokkurinn bjó að þessum skóla allan þann tíma sem hann hafði völdin í menntamálaráðuneytinu.

Ég verð að segja að mér finnst það líka furðulegt að halda því hér fram að þeir sem ætli að koma að þessum skóla núna af frjálsum vilja og frumkvæði sínu hafi sett það skilyrði að hlutafélag yrði um reksturinn. Ég hef ekki heyrt það fyrr. Ég vil þá fá það hreint út hvort það er rétt að þeir hafi sett það skilyrði. Það væri prýðilegt að hv. þingmaður upplýsti það hér að slíkt hefði komið fram. Mig langar líka að vita hvenær það var sagt og hvenær það kom fram að það væri skilyrði fyrir því að koma að þessum rekstri. Það stendur ekki í þeim plöggum sem ég hef séð.

Síðan vil ég segja það að sjálfseignarstofnunarfyrirkomulagið hefur reynst prýðilega og ekki á nokkurn hátt verið fjötur um fót þeim skólum sem hefur gengið best á undanförnum árum. Til dæmis hefur rektor Háskólans á Bifröst sagt að þetta form hentaði mjög vel og þetta væri besta formið til þess að reka skóla af því tagi. Það er ekki vandinn. En það væri gaman að heyra hjá hv. þingmanni (Forseti hringir.) hvernig og með hvaða hætti þessar kröfur voru settar fram um einkavæðingu þessa fyrirbrigðis.