131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[17:31]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veittist ekki með neinum hætti að þeim sem ráku Tækniháskólann. Það var vel gert miðað við þær aðstæður sem þar voru en ég veit alveg hvernig húsnæðið var og annar aðbúnaður sem sá skóli þurfti að búa við og hef komið þar og fylgst með því hvernig hann var, þannig að ég held að ég þurfi ekki að svara meiru til um það.

Hitt er svo greinilegt að hv. þingmaður treystir sér ekki til að halda því fram að þeir sem koma að rekstrinum núna hafi gert kröfu um að um einkahlutafélag yrði að ræða. Sú krafa kom hvergi fram. Þeir sögðu hins vegar að það hentaði vel og sjálfseignarstofnun hentar líka vel. Ég hef hvergi séð að þeir hafi haldið því fram að sjálfseignarstofnunarformið hentaði ekki vel, þannig að mig grunar að hlutafélagaformið hafi átt uppruna sinn annars staðar og krafan um að það yrði viðhaft en hjá þessum aðilum.